Tix.is

  • 07. nóv. - Kl. 19:30
  • 08. nóv. - Kl. 19:30
Miðaverð:2.600 - 8.100 kr.
Um viðburðinn

Víkingur og Daníel – Sinfóníuhljómsveit Ísland
- Á leið til Þýskalands

Edvard Grieg: Pétur Gautur, valdir þættir
Daníel Bjarnason: Processions, píanókonsert
W.A. Mozart: Hornkonsert nr. 3
Jean Sibelius: Sinfónía nr. 5

Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri
Víkingur Heiðar Ólafsson einleikari
Radovan Vlatkovic einleikari

Tónleikakynning » 18:00

Í nóvember 2019 heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis. Í Konzerthaus í Berlín verða haldnir tónleikar með Víkingi Heiðari Ólafssyni, sem er staðarlistamaður tónleikahússins starfsárið 2019/20, en í Salzburg verða haldnir þrennir tónleikar, meðal annars með króatíska hornsnillingnum Radovan Vlatkovic, auk þess sem haldnir verða tónleikar í München. Í aðdraganda tónleikaferðarinnar verða helstu verkin flutt á tónleikum í Eldborg.

Það var stórviðburður í íslensku tónlistarlífi þegar Víkingur Heiðar Ólafsson frumflutti nýjan píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, á Myrkum músíkdögum 2009. „Tónleikagestir svifu út með nýja trú á framtíðina“ skrifar Guðrún Nordal um tónleikana í nýlegri bók. Í kjölfarið hefur konsertinn hljómað víða um heim og hlotið frábæra dóma heimspressunnar.

Víkingur Heiðar er fyrir löngu kominn í fremstu sveit íslenskra tónlistarmanna á heimsvísu. Nýjasta plata hans, með verkum eftir Bach, hefur hlotið frábæra dóma, hlaut til dæmis BBC Music Magazine verðlaunin sem plata ársins auk þess sem hún var valin ein af útgáfum mánaðarins í hinu virta tímariti Gramophone og plata vikunnar í The Sunday Times. Undanfarin misseri hefur hann leikið með fremstu hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum, meðal annars í Helsinki, Stokkhólmi og Los Angeles, auk þess að halda einleikstónleika í Lundúnum og í Lincoln Center í New York.

Fimmta sinfónía Sibeliusar er glæsilegt verk og er af mörgum talin hans mesta afrek í sinfónísku formi. Sjálfur taldi hann sig sjaldan hafa gert betur, og í bréfi til trúnaðarvinar síns ritaði hann: „Guð lýkur upp dyrum sínum um stundarsakir og ég heyri hljómsveit hans leika fimmtu sinfóníuna.“

Aukatónleikar föstudaginn 8. nóvember eru komnir í sölu en uppselt er á tónleikana 7. nóvember.