Tix.is

Um viðburðinn

Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari halda tónleika í Hannesarholti þar sem þær flytja þýskar og íslenskar einsöngsperlur - allt frá 18.öld til okkar daga - sumar þeirra eru mjög sjaldan uppi á borði. Jafnframt mun Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um tónlistarsögu segja frá fordómum sínum gagnvart lögunum og/eða tónskáldum þeirra og dreifa nokkrum (gisnum) fróðleiksmolum. 

Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona útskrifaðist úr Royal Scottish Academy of Music and Drama árið 2007 með mastersgráður í tónlist og óperu. Síðan þá hefur hún sungið óperuhlutverk bæði hér heima og erlendis t.d. með Íslensku óperunni, Norsku óperunni, Clonter Opera Theatre, RSAMD, Norðurópi og Óp-hópunum. Árið 2010 vann Bylgja Dís til fyrstu verðlauna í Barry Alexander International Vocal Competition og söng þar af leiðandi á verðlaunatónleikum í Carnegie Hall. Bylgja Dís hefur haldið fjölda einsöngstónleika þ.á.m. tvenna Tíbrártónleika og fjölmarga hádegistónleika hjá Íslensku óperunni. Þá hún hefur komið fram með Royal Scottish National Orchestra og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins þar sem hún söng sópranhlutverkið í Carmina Burana. Nýlega söng Bylgja Dís hlutverk Sentu í rokkuppfærslu Norðuróps á Hollendingnum fljúgandi og sópranhlutverkið í frumflutningi á Lúterskantötu eftir Eirík Árna Sigtryggsson með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og kórum Kjalarnesprófastdæmis. Bylgja Dís var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Söngkona ársins 2017 í flokki klassíkur og samtímatónlistar fyrir tónleika sem voru í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni. 

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusar-akademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Á síðasta ári kom út geisladiskur með flutningi Helgu Bryndísar á einleiksverkum eftir Robert Schumann. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ. 

Trausti Jónsson er veðurfræðingur að mennt, veit ýmislegt um afkima íslenskrar tónlistarsögu, en kann þó fátt á því sviði. Hann hefur sinnt þar ýmsum verkum á fáförnum slóðum, gerði m.a. fjölmarga tónlistarþætti í útvarp (fyrir meira en 30 árum). Hann er stjórnarmaður í „Íslenska einsöngslaginu ehf“ og hefur um áratugaskeið smurt útgáfu á íslenskum einsöngslögum og endurútgáfu á íslenskum sönghljóðritum.