Tix.is

Um viðburðinn

Á þessum tónleikum mun semballeikarinn Guðrún Óskarsdóttir leika verk eftir Francois Couperin, Elisabeth Jacquet de la Guerre, Kolbein Bjarnason og Önnu Thorvaldsdóttur.

 

Að loknu píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík nam Guðrún semballeik hjá Helgu Ingólfsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún hjá Anneke Uittenbosch við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam, hjá Jesper Böje Christensen í Scola Cantorum í Basel og hjá Francoise Lengellé í París. Guðrún hefur leikið inn á fjölda hljómdiska og komið fram sem einleikari, meðleikari eða sem þátttakandi í kammertónlist á tónleikum á Íslandi, víða í Evrópu, í Bandaríkjunum og í Japan. Hún er félagi í kammerhópnum Nordic Affect og Caput-hópnum. Guðrún leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur einnig unnið í Íslensku óperunni og með Íslenska dansflokknum.

Guðrún leikur jöfnum höndum nýja og gamla tónlist og hefur tekið þátt í frumflutningi ótal íslenskra og erlendra verka. Fyrir nokkru kom út einleiksdiskurinn "In Paradisum" með leik Guðrúnar þar sem hún leikur nýja íslenska tónlist fyrir sembal. Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin fyrir diskinn.