Stórglæsilegir lokatónleikar RMM í Eldborg spanna vítt tónlistarlegt litróf og nýta til fulls einstaka listræna krafta hljóðfæraleikara hátíðarinnar. Þeir hefjast á leikrænum og grípandi forleik Sergeis Prokofjev við hebresk þjóðlög, en verkið er samið fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan – klarinett, strengjakvartett og píanó. Ellefti strengjakvartett Dimítrís Shostakovítsj er öllu þungbrýnni tónsmíð. Hann er þéttofinn og knappur, þótt hann rúmi víðfeðmt svið minninga og tilfinninga. Það sama má raunar segja um hinn fræga píanókonsert Jóhanns Sebastíans Bachs í f-moll, sem Víkingur Heiðar Ólafsson leikur ásamt strengjakvintett, en þokkafullur miðkafli konsertsins er einhver sá allra fegursti sem tónskáldið festi á blað. Eftir hlé er slagharpan í forgrunni, í meðförum þekktasta píanódúetts síðari ára, hinna frönsku Labèque-systra. Í Vals og Rómönsu Sergeis Rachmaninoffs er að vísu þörf fyrir þriðja píanistann, og tekur Víkingur Heiðar Ólafsson því sæti milli þeirra systra í heillandi músíkalskri baráttu sex handa um yfirráð yfir hljómborðinu. Tónleikunum og hátíðinni lýkur á nokkrum snilldarverkum minimalismans fyrir tvö píanó – en Evrópa og Ameríka eiga hvort sinn spámann þegar kemur að einfaldleikanum; Arvo Pärt og Philip Glass.
Efnisskrá:
Sergei Prokofiev Forleikur um hebresk stef, op. 34 (1919)
Johann Sebastian Bach Hljómborðskonsert nr. 5 í f-moll, BWV 1056 (1738)
Dmitri Shostakovich Strengjakvartett nr. 11, op. 122 (1966)
Intermission
Sergei Rachmaninoff Vals og rómansa fyrir sexhent píanó (1890 – 1891)
Arvo Pärt Hymn to a Great City (1984)
Philip Glass The Poet Acts (2002)
Philip Glass Four Movements for Two Pianos (2008)
Artists:
Ilya Gringolts, fiðla
Anahit Kurtikyan, fiðla
Yura Lee, víóla
Leonard Elschenbroich, selló
Jakob Koranyi, selló
Katia Labèque, píanó
Marielle Labèque, píanó
Víkingur Heiðar Ólafsson, píanó