Tix.is

Um viðburðinn

Í Verki nr. 1,5 er áhorfandanum boðið inní marglaga heim hreyfingar og hljóða. Þar sem  hreyfingin er skörp og skýr en full angist og átaka. Þetta er heimur mótsagna þar sem nándin og fjarlægðin renna saman í eitt og  rafmagnað samband þess innra og ytra er kannað.


Verk nr. 1,5 er annað dansverkið í samnefndri röð verka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur sem sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansi þar sem stöðugt er leitað að hinum dansinum, okkar dansi.


Verkið er hluti af Vorblóti 2019 – árlegri sviðslistahátíð Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival. Hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika sviðslistanna á einu bretti. Hátíðarpassi veitir forgang á öll 8 sviðsverk hátíðarinnar ásamt 20 % afslætti á kaffihúsi Tjarnarbíós.


Danslistakonan Steinunn Ketilsdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur þverfaglega innan danslistarinnar sem flytjandi, höfundur, rannsakandi, kennari og skipuleggjandi - bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn. Í gegnum líkamann og kóreógrafíu nálgast hún hreyfingu, hugsun og texta í verkum sínum. Síðastliðin ár hefur Steinunn helgað sig því að skapa rými í gegnum verkefnin sín þar sem fjalla má á gagnrýninn hátt um fyrirfram gefnar hugmyndir okkar tengdum danslistinni og hvernig væntingar hafa áhrif á okkar listræna og persónulega líf. Rými fyrir rannsóknir og greiningu, sem krefst djúphygli og er vegvísir til framtíðarinnar.


Höfundur: Steinunn Ketilsdóttir Flytjandi: Snædís Lilja Ingadóttir Tónlist: Áskell Harðarson Búningur: Alexía Rós Gylfadóttir Ljós: Kjartan Darri Kristjánsson Verkefnisstjóri: Erla Rut Mathiesen