Tix.is

Um viðburðinn

Vorblót 2019: I want to dance like you part 2


I Want to dance like you part 2 er sjálfstætt framhald verksins I want to dance like you sem mistókst svo hrapalega þegar það var fyrst sett á svið að það heppnaðist vel fyrir tilviljun. Núna, þegar ár er liðið frá fyrra verkinu, velta höfundarnir Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir því fyrir sér hvernig hægt er að skapa framhald af verki sem heppnaðist óvart, einmitt af því það „misheppnaðist“. Hvernig verða mistök að möguleikum? Nú er ár liðið frá fyrra verki og markmiðið er að gera betri sýningu, því þær eru nú einu sinni útskrifaðar með „BA gráðu í sviðslistum!


Verkið er hluti af Vorblóti 2019 – árlegri sviðslistahátíð Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival. Hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika sviðslistanna á einu bretti. Hátíðarpassi veitir forgang á öll 8 sviðsverk hátíðarinnar ásamt 20 % afslætti á kaffihúsi Tjarnarbíós.


Nánar um verkið:

Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir útskrifuðust úr Listaháskóla Íslands vorið 2018. Alma útskrifaðist af sviðshöfundabraut og Ástrós samtímadansbraut. Saman hafa þær unnið að ýmsum verkefnum sem öll eiga það sameiginlegt að vinna þvert á listgreinar. Þær  nýta styrkleika sem og veikleika úr hvorri listgrein fyrir sig til að kanna möguleika samruna og sambræðings. Verkið I want to dance like you var útskriftarverk Ástrósar. Það var unnið út frá löngun þeirra til að læra að dansa út frá forsendum hver annarrar. Vinnsla verksins gekk vel framan af en endaði svo í kaosi þegar perónulegt líf þeirra tróð sér með offorsi inn í æfingaferlið. Til varð rými fyrir uppgjöf, einlægni, vináttu, leyfi til að gera mistök og til að láta lífið hafa áhrif á listina. Úr varð sýning um sýninguna sem varð aldrei. Nú ári síðar taka þær höndum saman við gerð á framhaldi sem er í senn tilraun til að færa fyrra verkið úr skólabúning og inn í heim hins sjálfstæða listamanns og rannsókn á hugmyndinni um mistök. I want to dance with you part 2 er sýning um sýninguna um sýninguna sem varð aldrei.


Höfundar og flytjendur: Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir Ljósahönnun: Guðmundur Felixson Tónlist: Kristinn Arnar Sigurðsson Ljósmyndir: Sunna Axelsdóttir Sérstakar þakkir: Bára Magnúsdóttir, Henson, Irma Mjöll Gunnarsdóttir, Kári Einarsson, Lára Sif Lárusdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.