Tix.is

Um viðburðinn

Heimildarmynd um konur á einhverfurófi

Hvers vegna leggjum við sérstaka áherslu á stúlkur og konur á einhverfurófi? Þær finnast oft ekki fyrr en á geðdeild, í kulnun, fastar í grófri kynferðislegri misnotkun og hársbreidd frá sjálfsvígi. Algengt er að stúlkur og konur feli einhverfueinkenni sín en því fylgir mikið álag og vanlíðan. Oft enda þær með hlaðborð af greiningum og aukaverkunum sem þær eiga erfitt með að sætta sig við. Svörin liggja ekki þar.

Úr myndinni:

„Hvað eru margar konur á örorkubótum í dag!? Hvers vegna eru þessar konur á örorkubótum!? Hvers vegna eru svona margar konur með vefjagigt!? Hvers vegna er svona erfitt að vera til!? þetta þarf ekki að vera svona, er enginn í kerfinu að spyrja sig þessara spurninga? Þetta er kerfislægur vandi.“Konur á einhverfurófi fá greiningu seint og það hefur neikvæð og alvarleg áhrif á líðan þeirra, heilsu og tækifæri til þátttöku. Heimildarmyndin „Að sjá hið ósýnilega“ varpar ljósi á líf og reynslu einhverfra kvenna og markmiðið með henni er að vekja athygli á stöðu þeirra, vinna gegn fordómum og stuðla að jákvæðum viðhorfum í samfélaginu.