Tix.is

Um viðburðinn

Vorið er á næsta leyti og því fagna félagar í Karlakór Reykjavíkur með þrennum tónleikum í Langholtskirkju dagana 24. og 25 apríl kl. 20 og 27. apríl kl. 15.

Dagskráin verður fjölbreytt sem fyrr þar sem slegnir verða norrænir, amerískir og miðevrópskir tónar.

Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er sópransöngkonan Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sem getið hefur sér gott orð á óperusviðinu og í tónleikasölum víða um Evrópu. Hún vakti verðskuldaða athygli á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar síðastliðnum og um þessar mundir syngur hún í velheppnaðri uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata eftir Giuseppi Verdi.

Anna Guðný Guðmundsdóttir, sérlegur píanóleikari kórsins, verður við hljóðfærið og ljær með því tónleikunum sinn einstaka blæ eins og hún hefur gert í hartnær þrjá áratugi.

Þar að auki mun hornaflokkur koma fram í tveimur lögum auk þess sem nokkrir kórfélagar munu syngja einsöng.

Friðrik S. Kristinsson stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur hefur alla tauma í hendi sér og tryggir sannan heildarhljóm sem engan svíkur. Í ár eru liðin þrjátíu ár síðan hann hóf að starfa með kórnum og eru það tímamót sem sannarlega ber að fagna. Það var mikið lán fyrir Karlakór Reykjavíkur að fá þennan listamann til liðs við sig á sínum tíma og trúa kórfélagar því að ekki sjái fyrir endann á því samstarfi.