Tix.is

Um viðburðinn

Kvöldstund í Hannesarholti með Valdimari Sverrissyni ásamt Önnu Valdimarsdóttur móður hans í Hannesarholti fimmtudagskvöldið 21.febrúar, þar sem bæði gaman og alvara ráða ríkjum.

Valdimar fæddist árið 1967 og ólst upp á Íslandi, í Noregi og Bandaríkjunum. Eftir stúdentspróf lagði hann stund á ljósmyndanám á Englandi og útskrifaðist sem ljósmyndari frá Bournemouth & Pool College of Art and Design. Eftir heimkomuna til Íslands opnaði Valdimar ljósmyndastofu og tók að sér ýmis ljósmyndunarverkefni auk þess sem hann starfaði hjá prentsmiðjunni Prentmet.

Þar uppgötvaðist kímnigáfa Valdimars fljótt og var hann í framhaldinu fenginn til að búa til myndbönd til að skemmta starfsfólki á árshátíðum fyrirtækisins.

Árið 2015 greindist Valdimar með góðkynja heilaæxli sem var fjarlægt með þeim afleiðingum að hann missti sjónina. Í kjölfarið hefur hann lagt áherslu á að skapa sér nýtt líf meðal annars með uppistandi, söng og trommuleik.

Valdimar er faðir þriggja dætra á aldrinum 7 – 28 ára.

Anna Valdimarsdóttir er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og rithöfundur. Hún er höfundur hinnar útbreiddu sálfræðibókar Leggðu rækt við sjálfan þig og hefur auk þess gefið út bækurnar Leggðu rækt við ástina, Hugrækt og hamingja og ljóðabókina Úlfabros. Anna var aðalhöfundur fræðsluþátta um fjölskylduna sem sýndir voru í sjónvarpi af tilefni árs fjölskyldunnar og hún hefur skrifað fjölda greina og haldið fyrirlestra og námskeið bæði hérlendis og erlendis um sjálfsstyrkingu, sjálfstraust, ást, erótík, hamingjuna, núvitundina og fleiri sálfræðileg efni.

Anna var kennslustjóri í námi í hugrænni atferlismeðferð á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands þar sem hún var handleiðari og kennari. Hún er nú formaður Dáleiðslufélags Íslands og var um skeið formaður Lífspekifélags Íslands og fyrsti formaður Alúðar, félags um núvitund og vakandi athygli.

Anna á þrjá syni og er Valdimar Sverrisson þeirra elstur.

Kvöldverður í boði í veitingastofunum á 1.hæð á undan kvöldstundinni. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is