Tix.is

Um viðburðinn

Laugardaginn 2. febrúar kl. 14.00 munu Menntaskóli í tónlist og leikfélagið Hugleikur frumsýna tvær íslenskar óperur byggðar á þekktum ævintýrum þar sem snælda og rokkur koma við sögu. Fyrir hlé birtast Þyrnirós, prins og norn í nýrri óperu sem nefnist „Ár og öld“. Ungur prins hefur brotist í gegnum þyrnigerði og kemur inn í höll þar sem allir hafa sofið í hundrað ár, en ævintýrið tekur óvænta stefnu þegar prinsinn vekur nornina óvart á undan Þyrnirós. Nornin hrífst af prinsinum og reynir að villa um fyrir honum, en verður að láta í minni pokann þegar Þyrnirós vaknar. Í hefndarskyni grípur hún aftur til snældunnar, en ekki fer allt eins og hún óskar sér.

 

Eftir hlé er það svo flagðið Gilitrutt sem blekkir hina húðlötu Ragnhildi. Hún býðst til að spinna og vefa úr allri ullinni á bænum og einu launin sem hún fer fram á er að húsfreyja geti upp á nafninu á henni. Í fyrstu telur Ragnhildur að það verði létt verk að komast að því, en á endanum verður hún að leita ráða hjá bónda sínum. Gimbrin Golsa hjálpar honum til að leysa þrautina og allt fer vel að lokum.

 

„Gilitrutt“ var fyrst flutt fyrir tíu árum síðan, en „Ár og öld“ er frumflutt núna.

Höfundur texta og tónlistar er Þórunn Guðmundsdóttir sem jafnframt leikstýrir verkunum. Kári Þormar stjórnar átta manna kammerhljómsveit og á sviðinu verða sex einsöngvarar, þrettán manna kór og ein gimbur.

 

Sýningin verður í Iðnó, en aðeins er um þrjár sýningar að ræða: lau. 2. og sun. 3. febrúar kl. 14.00 og mán. 4. febrúar kl. 20.00.