Tix.is

Um viðburðinn

Ný plata Sæunnar Þorsteinsdóttur sellóleikara kemur út hjá amerísku útgáfunni Sono Luminus 8. mars. Á tónleikunum í Ásmundarsal leikur Sæunn verkin 4 á plötunni sem eru öll íslensk; Afterquake eftir Pál Ragnar Pálsson, 48 images of the moon eftir Þuríði Jónsdóttur, O eftir Halldór Smárason og Solitaire eftir Hafliða Hallgrímsson.

 

Sæunn Þorsteinsdóttir er einn fremsti sellisti Íslands og hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir innblásinn og tilfinningaþrunginn leik sinn. Hún byrjaði fimm ára gömul að læra á selló við Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins en hún fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þegar hún var sjö ára. Hún lauk meistaraprófi frá Juilliardtónlistarháskólanum í New York og hefur leikið á fjölda tónleika og tónlistarhátíða um allan heim. Sæunn hefur meðal annars komið fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles, Sinfóníuhljómsveit Toronto og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur hljóðritað einleikssvítur Brittens fyrir selló og komið fram m.a. í Carnegie Hall og Suntory Hall í Japan, og hefur leikið kammertónlist m.a. með Itzhak Perlman, Mitsuko Uchida og Richard Goode. Hún kennir við Washington-háskóla í Seattle samhliða því að halda tónleika víða um heim. Sæunn var meðal flytjenda á viðamikilli Íslandshátíð sem Fílharmóníuhljómsveitin í Los Angeles stóð fyrir árið 2017 þar sem hún flutti sellókonsertinn Quake eftir Pál Ragnar Pálsson og skemmst er að minnast flutnings hennar á kafla úr Bow to String eftir Daníel Bjarnason á Klassíkin okkar í haust.