Tix.is

Um viðburðinn

Auður Íslands er nýr dagskrárliður í Hannesarholti sem lítur til lands, þjóðar og tungu útfrá sjónarhornum náttúruvísinda, félagsvísinda og lista. Andri Snær Magnason ríður á vaðið með þremur kvöldum á haustönninni undir þessum hatti. Kvöld Andra Snæs eru nokkurs konar þríleikur sem gengur undir heildarheitinu „Tíminn og vatnið.“ Þann 8. nóvember er þriðji og síðasti hluti þríleiks Andra Snæs Magnasonar um tímann og loftslagið.

Andri Snær Magnason hefur fengið vísindamenn og tónlistarmenn til liðs við sig til að fást við Tímann og vatnið í Hannesarholti. Helgi Björnsson fjallaði um Tímann og jöklana og Edda Elísabet Magnúsdóttir fjallaði um tímann og hafið. Það er óhætt að segja að þær áskoranir sem maðurinn stendur frammi fyrir séu yfirþyrmandi.

Nú er komið að síðasta kvöldinu sem fjallar um Tímann og loftslagið og um leið og rætt verður um afleiðingar loftslagsbreytinga er einnig rætt um tímann og lausnirnar og eitthvað um vonina. Svavar Knútur mun einmitt syngja um tregann, tímann, hafið og vonina.

Vísindanefnd Sameinuðu Þjóðanna gaf nýlega út skýrslu sem málaði vægast sagt dökka mynd af framtíðinni. Þeir birtu sviðsmyndir af 1.5 gráðu hækkun og tveggja gráðu hækkun á hitastigi jarðar, hvorugur valkostur virtist góður en síðari valkosturinn var öllu dekkri.
Báðar sviðsmyndir fela í sér útdauða lífvera, styrjaldir og átök um vatn, uppskerubrest, flóttamannastraum og ofsaveður. Það er óhætt að segja að í þetta sinn hafi vísindamenn tekið sterkt og afdráttarlaust til orða. Samkvæmt skýrslunni hefur mannkynið aðeins 12 ár til að ná tökum á losun á gróðurhúsalofttegundum, ef ekki á að fara illa. Margir telja skýrsluna ganga of skammt, samkvæmt henni mun súrnun hafsins samt sem áður eiga sér stað, kóralrif heimsins deyja út að langmestu leyti og stór svæði í heiminum fara undir vatn og verða óbyggileg af öðrum ástæðum. Sumir telja að ástandið sé svo yfirþyrmandi að ekkert verði hægt að gera. Í sömu viku og skýrslan kom út fór olíuframleiðsla yfir 100 milljón tunnur á dag, sem jafngildir meðalrennsli um Dettifoss í fyrsta skipti í sögunni.

Við lítum yfir sviðið og horfum á lausnirnar. Hvað þarf að gera, hvað er hægt að gera? Er eitthvað hægt að gera?
Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir er doktor í jarðvísindum. Hún hefur starfað að Carbfix verkefninu uppi á Hellisheiði þar sem árangur í niðurdælingu á CO2 er langt framar væntingum. Ef við skoðum sögu flugsins, frá fyrstu til raunum til farþegaflugs þá sjást ótrúleg framfarastökk. Ef við skoðum Manhattan verkefnið, Marshall aðstoðina, þróun í tölvutækni má sjá hvernig mannkynið hefur séð ótrúlegar breytingar og stórstíg stökk á örfáum árum og áratugum. Getum við vænst þess að upplifa svo spennandi tíma, eða neyðumst við til að horfa upp á alla tæknina og þekkinguna ónotaða, á meðan hægfara eyðilegging spillir grundvelli lífsins fyrir menn og aðra íbúa hnattarins?