Tix.is

Um viðburðinn

Fimmta plata Ensími kemur út í júní og hefur hún hlotið nafnið Herðubreið. Í tilefni af útgáfu plötunnar ætlar Ensími að blása til útgáfutónleika 13. júní í Gamla Bíó. Ekkert verður sparað til við framkvæmd tónleikanna og verða þetta sitjandi tónleikar. Ensími mun flytja lög af Herðubreið ásamt vel völdum slögurum úr sarpi sveitarinnar.

Hljómsveitin Ensími var stofnuð árið 1996 til að svala þorsta liðsmanna í tónlistarsköpun. Í upphafi var ekki stefnan að gera eiginlega hljómsveit en eftir eðlilegan meðgöngutíma hljóðrituðu liðsmenn prufuupptökur af nokkrum lögum sem rötuðu í hendurnar á útgefendum sem vildu ólmir gefa efniviðinn út. Frumburður sveitarinnar „Kafbátamúsík“ leit dagsins ljós árið 1998 og hlaut einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda þrátt fyrir að sveitin hafði aldrei komið fram opinberlega og því ekkert þekkt. Hljómsveitin var valin bjartasta vonin og lagið ,,Atari” var valið besta lagið á Íslensku tónlistaverðlaununum það árið. Haustið 1999 hófust upptökur á annari plötu Ensími. Var hún að stórum hluta unnin af upptökustjóranum Steve Albini, sem þekktastur er fyrir starf sitt með sveitum eins og Nirvana og Pixies. Fyrir vikið hafði ,,BMX” yfir sér hrárri hljóm að hluta heldur en frumburðurinn. Þriðja plata sveitarinnar var unnin af liðsmönnum Ensími og kom út árið 2002 og var samnefnd sveitinni. Fjórða platan „Gæludýr“ kom svo út árið 2010.

Ensími er rómuð fyrir öflugan lifandi flutning enda liðsmenn fagmenn sem koma regulega fram með helstu tónlistarmönnum samtímans. Ensími er sparsöm á tónleikahald og því sjaldgefið tækifæri að bera hana augum og eyrum þegar hún fer á stjá.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00

Ensími eru:
Hrafn Thoroddsen – Söngur / Gítar
Franz Gunnarsson – Gítar / Söngur
Guðni Finnsson – Bassi / Söngur
Þorbjörn Sigurðsson – Hljómborð / Söngur
Arnar Gíslason – Trommur