Tix.is

Um viðburðinn

Jólaóratorían eftir J.S. Bach
Dómkórinn í Reykjavík, ásamt einsöngvurum og kammersveit

Jólaóratorían eftir J.S. Bach er í hugum margra ómissandi þáttur í aðdraganda jólanna. Dómkórinn í Reykjavík, ásamt einsöngvurum og kammersveit, flytur þetta magnaða verk í Hallgrímskirkju laugardaginn 24. nóvember.  Einsöngvarar verða þau Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hanna Dóra Sturludóttir alt, Benedikt Kristjánsson tenór og Jóhann Kristinsson bassi. Konsertmeistari er Una Sveinbjarnardóttir og stjórnandi er Kári Þormar dómorganisti.  

Jólaóratorían eftir J.S. Bach er þekktasta og stórbrotnasta tónverk sem samið hefur verið í tilefni af fæðingarhátíð Krists og hefur glatt hjörtu tónlistarunnenda um langan aldur, enda eitt höfuðverka síðbarokksins. Verkið inniheldur sex kantötur sem Bach samdi undir árslok 1734.  Á tónleikunum í Hallgrímskirkju verða fluttar fjórar kantötur, númer 1, 3, 5 og 6 og tekur flutningurinn um tvær klukkustundir. Hátt í 100 manns koma að flutningnum, 20 manna hljómsveit og 70 manna kór, ásamt einsöngvurum og stjórnanda.

Jólaóratorían var fyrst flutt hér á landi árið 1964 og á seinni árum heyrir það til undantekninga ef jólóratorían er ekki flutt hér á landi fyrir jólin. Dómkórinn flutti síðast kantötur númer 1, 2 og 3 fyrir tíu árum, í Langholtskirkju 2008.

Dómkórinn hefur haldið fjölda tónleika bæði hérlendis og erlendis og hefur hvarvetna hlotið lof fyrir. Verkefnavalið hefur verið fjölbreytt en meðal annars hefur kórinn flutt ýmis stórvirki tónbókmenntanna og má þar nefna Þýska sálumessu Jóhannesar Brahms, Jólaóratoríu Jóhanns Sebastians Bach, Requiem eftir Wolfgang Amadeus Mozart, Messías eftir Händel, Jóhannesarpassíu Jóhanns Sebastians Bach og sálumessur eftir Maurice Duruflé og Gabriel Fauré. Í júní síðastliðinn hélt kórinn tónleika í París þar sem hann flutti m.a. sálumessu eftir Maurice Duruflé.