Tix.is

Um viðburðinn

Auður Íslands er nýr dagskrárliður í Hannesarholti sem lítur til lands, þjóðar og tungu útfrá sjónarhornum náttúruvísinda, félagsvísinda og lista. Andri Snær Magnason ríður á vaðið með þremur kvöldum á haustönninni undir þessum hatti. Kvöld Andra Snæs eru nokkurs konar þríleikur sem gengur undir heildarheitinu „Tíminn og vatnið.“ Þann 25. október er annar hluti þríleiks Andra Snæs Magnasonar um tímann og vatnið. Að þessu sinni er fjallað um Tímann og hafið.

Andri Snær Magnason, Edda Elísabet Magnúsdóttir og Jónas Sigurðsson tónlistarmaður.
Sjálfsmynd Íslendinga og ímynd Íslands er að miklu leyti bundin við landið. Fjöll og jöklar, fossar og hraunbreiður, lóur og sauðkindur. Hafsins hetjur eru okkur mikilvægar en hafið er stundum undarlega fjarlægt okkur.

Eftir útfærslu landhelginnar í 200 mílur varð lögsaga Íslands 87% vatn. Við höfum varla útfært landhelgi hugans út í þessar 200 mílur og ótrúleg fjölbreytni dýralífs er okkur að mestu ókunn. Menntakerfið leggur litla áherslu á lífríki hafsinu en ef menn skoða alla þá fiska og öll þau undur sem liggja í djúpunum þá ætti öllum að vera ljóst að börn okkar ættu að hafa æði fyrir hafinu.

Edda Elísabet Magnúsdóttir er doktor í sjávarlíffræði en doktorsritgerð hennar fjallaði um ástarsöngva hnúfubaksins. Hún mun fjalla um fegurð og fjölbreytni undirdjúpanna en líka þær ógnir sem steðja að hafinu.

Á næstu 100 árum er talið að hafið muni taka meiri breytingum en það hefur gert á síðustu 30 milljón árum. Hafið tekur upp um 30% af því CO2 sem mannkynið losar og það veldur súrnun hafsins. Þetta málefni hefur hlotið litla athygli síðustu ár en súrnun hafsins er fyrst nefnt í íslenskum fjölmiðlum árið 2006. Talið er að PH gildi hafsins muni lækka úr 8.1 allt niður í 7.7. Þetta er einn stærsti viðburður jarðsögunnar enda þekur hafið um 70% hnattarins og enginn veit hvernig líf þrífst í slíku hafi.
Það var uppselt á síðasta viðburð í Hannesarholti svo fólk er beðið um að tryggja sér miða í tíma. Kvöldmatur á undan fyrir þá sem það kjósa. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is