Tix.is

Um viðburðinn

Fullvalda í 100 ár
Íslensk-tékknesk tónlistarhátíð

Fullvalda í 100 ár er yfirskrift íslensk-tékkneskrar tónlistarhátíðar sem haldin verður 28. október til að fagna 100 ára fullveldi beggja ríkjanna, Íslands og Tékklands, á árinu 2018. Hátíðin er samstarfsverkefni tónlistarhópanna Camerarctica, Caput og blásaraoktettsins Hnúkaþeys sem leika hver sína tónleika í Norðurljósasal Hörpu kl. 13, 15 og 17, þar sem flutt verður íslensk og tékknesk tónlist, allt frá klassíska tímabilinu til frumflutnings á glænýrri tónlist. Á milli tónleikanna verður glatt á hjalla þegar leikin verður þjóðlagatónlist beggja landa í Hörpuhorni og tékkneski þjóðlagahópurinn Jaro leiðir fjörið. Markmið hátíðarinnar að koma á framfæri tónlist sem við Íslendingar höfum fengið í arf og bera hana saman við tékkneska tónlist byggða á fornum grunni. Hátíðin hefur verið valin á dagskrá afmælisnefndar 100 ára fullveldis Íslands: www.fullveldi1918.is og er styrkt af fullveldissjóði.

Hátíðarpassi: 5.500 kr.
Stakir tónleikar: 3.500 kr.

_______________________________________

Camerarctica kl 13

Á fyrstu tónleikum íslensk-tékknesku tónlistarhátíðarinnar leikur Camerarctica ásamt gestum kammerverk eftir tékkneska meistara og íslensk þjóðlög í nýjum búningi.

Sex íslensk þjóðlög í útsetningu Þorkels Sigurbjörnssonar fyrir klarinettu, selló og píanó, eru fjölbreytt og skemmtileg. Þjóðlögin eru ýmist andlegs eða veraldlegs eðlis, stíll laganna er margbreytilegur og möguleikar hvers hljóðfæris eru nýttir til hins ýtrasta.

Tékkneska tónskáldið Franz Krommers er einkum þekktur fyrir framlag sitt til blásaratónlistar, sér í lagi klarinettunnar. Kvintett fyrir klarinettu og strengi ópus 95 í B-dúr kom út árið 1820. Þrátt fyrir að höfundareinkennin séu skýr, blómstrandi laglínur og ákefð, ríkir gott jafnræði milli hljóðfæranna.

Musique de Chambre Nº 1 eftir Bohuslav Martinu er á margan hátt einstakt og óvenjulegt tónverk en þar raðar Martinu saman hljóðfærum sem sennilega höfðu aldrei verið sett saman áður: Píanó, harpa, klarinetta, fiðla, víóla og selló. Tónverkið er eitt af síðustu verkum Martinus, samið fimm mánuðum fyrir andlát hans 1959. Frönsk og tékknesk áhrif svífa yfir vötnum, vitnað er í þjóðlög, aldagamla pólífóníu og djass þannig að úr verður heillandi tónmál eins og Martinu er einum lagið.

Camerarctica-hópurinn var stofnaður árið 1992. Camerarctica hefur staðið að fjölmörgum tónlistarhátíðum, meðal annars í minningu tónskáldanna Hindemith, Fauré, Schubert og Brahms, og tekið þátt í Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík og Norrænum músíkdögum. Hópurinn hefur komið fram á tónleikum Kammermúsikklúbbsins á hverju ári frá árinu 1997 og flutt við þau tækifæri til dæmis strengjakvartetta Shostakovits, Bartóks og sónötur Zelenka. Camerarctica hefur árlega haldið afar fjölsótta tónleika á aðventu undir yfirskriftinni „Mozart við kertaljós” og hljóðritað tvo geisladiska með verkum Mozarts.

Camerarctica og gestir:
Ármann Helgason, klarinetta
Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla
Guðrún Þórarinsdóttir, víóla
Svava Bernharðsdóttir, víóla
Sigurður Halldórsson, selló
Elísabet Waage, harpa
Peter Máté, píanó

_____________________________________________

Caput hópurinn kl 15

Á tónleikum hátíðarinnar kl. 15.00 frumflytur Caput hópurinn tvö ný verk; Rounds eftir Hauk Tómasson og Echotopoeia eftir Pétur Eggertsson. Auk þess flytur Caput tónverk tékkneska tónskáldsins Ondrej Adamek, Ca tourne ça bloque, en öll verkin eru skrifuð fyrir tiltölulega stóra sinfóníettu.

Haukur Tómasson hefur samið fjölda verka fyrir Caput hópinn og er nýrra verka eftir Hauk ávallt beðið með mikilli eftirvæntingu. Verk Hauks hafa hlotið heimsathygli, þar á meðal Píanókonsert fyrir Víking Heiðar 2016 og óperan Fjórði söngur Guðrúnar í hljóðriti Caput, sem hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004.

Pétur Eggertsson er að skrifa sitt fyrsta verk fyrir Caput. Tónsmíðar hans fara þvert á listgreinar en hann rannsakar hvernig önnur efni en hljóð geta nýst í tónlist, svo sem mynd, hreyfing og ilmur. Myndlist, leikhús og aðrir heimar blandast við tónlistina og bæta við nýrri vídd, umfram hljóð og samhljóm.

Stjarna tékkneska tónskáldsins Ondrej Adamek skín skært um þessar mundir og hefur tónlist hans verið leikin af öllum helstu sinfóníettum Evrópu, gjarnan undir hans stjórn. Adamek hefur unnið náið með íslenska rithöfundinum Sjón og hlaut ópera þeirra „Sjö steinar“ evrópsku FEDORA–Generali verðlaunin sem besta frumsamda ópera ársins 2018.

Caput hópurinn hefur á síðastliðnum 30 árum áunnið sér mikilvægan sess í tónlistarlífi Íslendinga. Hópurinn var stofnaður á árunum 1987-88 í þeim tilgangi að flytja nýja eða nýlega tónlist, íslenska jafnt sem erlenda. Á löngum og viðburðaríkum ferli hefur hópurinn leikið á mörgum helstu tónlistarhátíðum heims, ferðast um Evrópu, Ameríku og Asíu og leikið inn á fjölda hljómdiska, www.caput.is.

___________________________________________

Blásaraoktettinn Hnúkaþeyr kl 17

Á lokatónleikum hátíðarinnar kl. 17:00 leikur Hnúkaþeyr stóru blásaraserenöðuna eftir tékkneska tónskáldið Antonín Dvorák, en serenöðuna samdi Dvorák í kjölfar heimsóknar til Vínar. Þar heillaðist hann af flutningi Vínarfílharmóníunnar á blásaraserenöðu Mozarts í B-dúr og hófst þegar handa við að semja sína eigin serenöðu. Hann stjórnaði sjálfur frumflutningi hennar þann 17. nóvember 1878. Þrátt fyrir að vera klassísk í formi, ber serenaðan afar tékkneskt yfirbragð í anda rómantíkurinnar, með syngjandi línum og dönsum í þjóðlegum stíl.

Tékkinn Josef Myslivecek var náinn vinur Leopolds Mozart og sonar hans Wolfgang Amadeusar, en tónlist Mysliveceks varð Wolfgang unga mikil fyrirmynd. Myslivecek samdi þrjár serenöður fyrir blásaraoktett. Á tónleikunum verður leikin serenaða í Es-dúr.

Íslensk tónverk fyrir blásaraoktett eru meiri nýlunda. Fyrsti íslenski blásaraoktettinn var saminn fyrir Hnúkaþey og frumfluttur 2008. Á þessum tónleikum leikur Hnúkþeyr tvær djassskotnar ballöður eftir ungt íslenskt tónskáld, Sigrúnu Kristbjörgu Jónsdóttur. Önnur ballaðan verður frumflutt á tónleikunum en skemmst er að minnast frumflutnings Hnúkaþeys á fyrri ballöðu Sigrúnar, Chorale, í brasilískum stíl í desember 2017.

Blásaraoktettinn Hnúkaþeyr var stofnaður árið 2003 og er samkvæmt hefðinni skipaður tveimur óbóum, tveimur klarinettum, tveimur hornum og tveimur fagottum. Fyrir utan að hafa sérstakt dálæti á klassískum oktettum frá 18. og 19. öld, hefur hópurinn flutt þau íslensku tónverk sem til eru fyrir þennan hljóðfærahóp og látið skrifa fyrir sig ný verk. Íslenska orðið hnúkaþeyr stendur fyrir hlýja fjallagolu úr suðri.