Tix.is

Um viðburðinn

Skorsteinninn

Lettland - 2013

Einu sinni var skorsteinn. Við skorsteininn lágu þrjú hús og í þessum þremur húsum bjuggu sjö ljóshærðar stelpur. Fallegt portrett af hversdagslegum ævintýrum barna.

Snjóæði

Lettland - 2012

Myndin segir frá skíðafólki í Lettlandi. Það er bara einn hængur á: Það eru engin fjöll í Lettlandi. Skíðafólkið deyr þó ekki ráðalaust og útbýr til skíðasvæði við undarlegustu aðstæður.

Halló hestur!

Lettland - 2017

 Kvikmynd um það hvernig allt breytist meðan allt er eins. Eða öllu heldur, um hvernig allt er alveg eins meðan það breytist.

_____________________________________________________ 

Laila Pakalnina

Laila Pakalnina er leikstjóri og handritshöfundur. Hún hefur afar afgerandi stíl, myndir hennar eru bæði kímnar og alvarlegar og segja mætti að hún sé einskonar Aki Kaurismäki heimildarmyndanna.

Pakalnina er fædd í Lettlandi árið 1962. Hún nam kvikmyndagerð í Kvikmyndskóla ríkisins í Moskvu og hefur á ferli sínum gert margvíslegar myndir en fyrst og fremst einblínt á heimildarmyndaformið. Heimildarmyndir Pakalninu sýna hliðar á heiminum sem þættu seint vera fréttnæmar við fyrstu sýn, þær sýna venjulegt fólk í daglegu lífi: Fólk á skíðum, á veiðum eða í fótbolta. Með snjallri myndfléttu sýnir hún þó að þessar daglegu athafnir eru síður en svo óáhugaverðar, þær eru sneisafullar af húmor og dramatík. Pakalnina hefur verið tilnefnd til fjölda alþjóðlegra verðlauna, þar á meðal Gullpálmans og Gullbjörnsins fyrir stuttmyndir sínar. Hún hefur margsinnis unnið til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Lettlandi, sem og fleirum, eins og Karlovy Vary og kvikmyndahátíðinni í Róm.

Pakalnina hefur sérstakt lag á að nota myndmál, hljóð og klippingu - þetta einstaka tungumál kvikmyndana - til að segja stórar og margræðar sögur. Myndir Pakalninu sýna hversdaginn á nýstárlegan og gáskafullan hátt og bjóða áhorfandanum að finna hið óvænta í hinu venjulega.