Tix.is

Um viðburðinn

Hæ, Rasma!

Eistland, Lettland, Litháen - 2015

Lettar eiga það til að velta fyrir sér afhverju nágrannar þeirra í Eistlandi hafi það svona ógurlega mikið betra en þeir. Hvað kemur til? Gæti það mögulega tengst skipbroti flutningaskipsins Rasma, sem sökk undan strönd Mohni eyjunnar fyrir 70 árum síðan?

Stuttmynd um lífið

Lettland - 2014

Átta menn taka sér stöðu á fótboltavelli. Þeir gera sig tilbúna, tvístíga og bíða eftir að skerandi vælinu í dómaraflautunni. Titillinn segir allt sem segja þarf, myndin er stutt og hún fjallar um lífið sjálft.

Hótel og bolti

Lettland - 2014

„Myndin fjallar um að velta fyrir sér afhverju heimurinn er sá staður sem hann er.“ Svona lýsir Pakalnina Hólteli og bolta. Út um hótelglugga sjáum við fótboltavöll þar sem ýmislegt gengur á. Við færum okkur þaðan inn á hótelið þar sem allt iðar af lífi, fólk borðar, þrífur og spjallar. Tvö ólík sjónarhorn kallast á í þessari ljóðrænu og kímnu mynd, sjónarhorn boltans og sjónarhorn hótelsins.

_____________________________________________________ 

Laila Pakalnina  

Laila Pakalnina er leikstjóri og handritshöfundur. Hún hefur afar afgerandi stíl, myndir hennar eru bæði kímnar og alvarlegar og segja mætti að hún sé einskonar Aki Kaurismäki heimildarmyndanna. 

Pakalnina er fædd í Lettlandi árið 1962. Hún nam kvikmyndagerð í Kvikmyndskóla ríkisins í Moskvu og hefur á ferli sínum gert margvíslegar myndir en fyrst og fremst einblínt á heimildarmyndaformið. Heimildarmyndir Pakalninu sýna hliðar á heiminum sem þættu seint vera fréttnæmar við fyrstu sýn, þær sýna venjulegt fólk í daglegu lífi: Fólk á skíðum, á veiðum eða í fótbolta. Með snjallri myndfléttu sýnir hún þó að þessar daglegu athafnir eru síður en svo óáhugaverðar, þær eru sneisafullar af húmor og dramatík. Pakalnina hefur verið tilnefnd til fjölda alþjóðlegra verðlauna, þar á meðal Gullpálmans og Gullbjörnsins fyrir stuttmyndir sínar. Hún hefur margsinnis unnið til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Lettlandi, sem og fleirum, eins og Karlovy Vary og kvikmyndahátíðinni í Róm.

Pakalnina hefur sérstakt lag á að nota myndmál, hljóð og klippingu - þetta einstaka tungumál kvikmyndana - til að segja stórar og margræðar sögur. Myndir Pakalninu sýna hversdaginn á nýstárlegan og gáskafullan hátt og bjóða áhorfandanum að finna hið óvænta í hinu venjulega.