Tix.is

Um viðburðinn

Myndin samanstendur af myndbandsúrklippum frá árunum 1960-2000, sem enduðu ekki í fullkláruðum kvikmyndum á sínum tíma, og sjálfsvísandi senum sem sýna Mekas í klippiferlinu. Mekas lítur yfir farinn veg í þessu sjálfsævisögulega kvikmyndaljóði sem fagnar lífinu og hamingjunni.

___________________________________________________________________________________________________________________

Jonas Mekas

Ég er andsetinn af kvikmyndalistagyðjunni og ég get ómögulega losnað við hana. - Jonas Mekas

Jonas Mekas hefur verið kallaður „guðfaðir bandaríska framúrstefnubíósins“ og ekki að ástæðulausu þar sem hann er sannkallaður frumkvöðull á því sviði.

Mekas fæddist í Litháen árið 1929. Árið 1944 flúði hann land vegna heimsstyrjaldarinnar síðari og hélt í mikla háskaför áður en hann komst að lokum til Bandaríkjanna. Árið 1949 keypti hann sína fyrstu 16 mm Bolex kvikmyndatökuvél og hóf að festa augnablik úr lífi sínu á filmu. Á löngum og viðburðaríkum ferli hefur hann gert ótal myndir, jafnt stuttar sem langar og unnið til verðlauna víða um heim. Myndir hans eru margvíslegar en hann er hvað þekktastur fyrir að gera svokallaðar „dagbókarmyndir“ sem samanstanda af myndskeiðum úr hversdaglífi hans. Mekas hefur unnið í nánu samstarfi við marga af nafntoguðustu listamönnum heims, þar má nefna Andy Warhol, Allen Ginsberg, Salvador Dalí, Yoko Ono og John Lennon.

Mekas er margt til lista lagt. Hann hefur ávallt verið iðinn við að skrifa um kvikmyndir og hann stofnaði meðal annars tímaritið Film Culture ásamt bróður sínum Adolfas Mekas sem var helgað kvikmyndalistinni. Hann er einnig afkastamikið ljóðskáld og telst vera eitt merkasta samtímaljóðskáld Litháens.