Tix.is

Um viðburðinn

Víkingur Heiðar Ólafsson fagnar útgáfu annars hljómdisks síns undir merkjum þýska útgáfurisans Deutsche Grammophon með glæsilegum útgáfutónleikum í Eldborg. Nýi diskurinn er helgaður verkum Johanns Sebastians Bachs og hefur að geyma stór og smá hljómborðsverk þessa meistara barokksins – verk sem búa yfir mikilli fegurð og dýpt, en einnig léttleika, húmor og virtúósískri spilagleði.

Víkingur leiðir tónleikagesti í gegnum verkin á nýja diskinum, en leikur Víkings á Bach hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda bæði austan hafs og vestan. Þá leikur Víkingur tvær stórbrotnar píanósónötur Beethovens, þá fyrstu og þá síðustu. Verkin tvö ramma inn feril Beethovens sem píanótónskálds, en óhætt er að segja að fáir hafi haft jafn afdrifarík áhrif á þróun formsins og píanótónlistar yfirleitt en einmitt hann. Síðar í vetur leikur Víkingur svo sömu efnisskrá í Berlín á útgáfutónleikum sínum í tónleikaröð Berlínar-Fílharmóníunnar.

Uppselt var á síðustu útgáfutónleika Víkings í Eldborg í fyrra þegar tónskáldið Philip Glass var í brennidepli. Nú, rétt eins og þá, kynnir Víkingur verkin sjálfur af sviðinu og óhætt er að lofa einstöku andrúmslofti.

Víkingur á netinu:
https://www.vikingurolafsson.com
https://www.facebook.com/vikingur.olafsson/
twitter @vikingurmusic
https://www.instagram.com/vikingurolafsson/