Tix.is

Um viðburðinn

Jón Ásgeirsson níræður
Auður Gunnarsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Snorri Sigfús Birgisson

Okkar mikilsvirta söngvaskáld, Jón Ásgeirsson, fagnar níræðisafmæli þann 11. október. Af því tilefni býður Tíbrá tónleikaröðin upp á sönglagaveislu með mörgum af hans fegurstu lögum, aríum og dúettum. Flytjendur eru Auður Gunnarsdóttir og Gunnar Guðbjörnsson en um píanóleik sér Snorri Sigfús Birgisson.

Efnisskrá

Auður Gunnarsdóttir lauk 8. stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1991 þar sem kennari hennar var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Árið 1997 lauk hún M.A. prófi frá ljóða- og einsöngvaradeild tónlistarháskólans í Stuttgart og M.A. prófi frá Óperuskóla tónlistarháskólans. Kennarar hennar þar voru m.a. Prof.Luisa Bosabalian og Carl Davis. Á námsárunum sótti Auður námskeið hjá Renötu Scotto, Brigitte Fassbaender og Hermann Prey. Haustið 1999 fékk Auður samning við óperuna í Würzburg þar sem hún söng hin ýmsu hlutverk, auk þess að koma reglulega fram í óperuhúsunum í Mannheim, Heidelberg, Bielefeld og Hannover. Auður hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér heima og erlendis. Diskar sem Auður hefur sungið inn á eru Íslenskir söngvar, heildarútgáfa af verkum Sigvalda Kaldalóns og Jóns Þórarinssonar, Little Things Mean a Lot og Ljóð, Lieder, Songs en sá síðast nefndi var tilnefndur til Íslensku tónslistarverðlaunanna 2012. Auður hefur farið með fjölda hlutverk í Íslensku óperunni og kemur oft fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sem einsöngvari með ýmsum kórum og sönghópum hér heima og erlendis. Fyrir hlutverk sitt Elle í óperunni Les voix humaines hjá Íslensku Óperunni var Auður tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Grímuverðlaunanna sem söngkona ársins 2017.

Gunnar Guðbjörnsson hefur komið fram sem einsöngvari víða um heima. Hann var fastráðinn við óperuhúsin í Wiesbaden, Lyon, Staatsoper í Berlín og í Freiburg á árunum 1990-2010. Auk þess hefur hann komið fram við mörg af helstu óperuhúsum Evrópu. Má þar nefna Ríkisóperurnar í München og Wien, Bastilluóperuna í París, Konunglegu óperuna í Madrid og óperuhúsin í Palermo, Bologna, Toulouse, Marseille, Hamburg, Köln, Gautaborg og Lissabon. Til ársins 2007 samanstóð hlutverkaskrá Gunnars að mestu af lýrískum tenórhlutverkum. Síðari ár hefur hann einbeitt sér að dramatískari verkum á borð við Siegfried í samnefndri óperu Wagners, Stolzing í Meistarsöngvurunum en einnig Idomeneo eftir Mozart og hlutverk Herodes í Salome eftir Strauss.
Gunnar hefur einnig komið fram með mörgum þekktum sinfóníuhljómsveitum en þar ber að nefna Royal Philharmonic í London, Fílharmóníusveit Berlínar, Chicago Symphony Orchestra, Orchestre Philharmonique de Radio France, Ensemble Modern og Göteborgs Symfoniker.
Gunnar hefur einnig sungið í þekktum tónleikasölum á borð við Albert Hall , Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London, Berliner Philharmonie og Schauspielhaus í Berlín, Alte Oper í Frankfurt, Cité de la musique og Salle Pleyel í París.
Fjöldi upptakna liggur eftir Gunnar en hann hefur m.a. sungið fyrir hljómplötufyrirtæki á borð við Philips, Bis og Teldec.
Í apríl síðastliðnum söng Gunnar tenórhlutverkið í Missa Solemnis eftir Beethoven með Sinfóníuhljómsveitinni í Nürnberg Meistersingerhalle í sömu borg.

Snorri Sigfús Birgisson stundaði fyrst píanónám hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974.
Á árunum 1974 – 1975 stundaði hann framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, en fór þaðan til Ósló og nam tónsmíðar hjá Finn Mortensen, raftónlist og hljóðfræði hjá Lasse Thoresen og Olav Anton Thommessen. Árið 1976 fór hann til Amsterdam til tónsmíðanáms hjá Ton de Leeuw. Frá því hann lauk námi 1980 hefur Snorri starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi. Hann er félagi í Caput-hópnum.