Tix.is

Um viðburðinn

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga Vocal Ensemble kemur fram á Sönghátíð í Hafnarborg á tónleikunum It's a Woman's World. Þema tónleikanna er femínismi, þar sem listakonum síðustu 1000 ára er fagnað. Á efnisskránni eru meðal annars lög eftir Hildegard von Bingen sem fædd var árið 1098 og Barböru Strozzi sem var uppi á 16. öld. Einnig verða flutt lög sem eru hvað þekkust í flutningi frægra söngkvenna, þar ber að nefna Ninu Simone, Édith Piaf og Billie Holliday. Einnig eru á efnisskránni fjögur lög sem samin voru sérstaklega fyrir Olgu. Fjölbreytni í lagavali og tónlistarstíl ræður ríkjum og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Á tónleikunum verður hægt að kaupa nýjasta geisladisk Olgu sem ber samnefnt heiti tónleikanna, It's a Woman's World.

Sönghópurinn hefur verið starfræktur síðan árið 2012 en hópurinn hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan þá. Hópurinn er skipaður 5 strákum sem allir eru búsettir í Hollandi. í Olgu eru Hollendingarnar Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingurinn Matthew Lawrence Smith, rússneski Bandaríkjamaðurinn Philip Barkhudarov og Íslendingurinn Pétur Oddbergur Heimisson.
#heforshe #itsawomansworld

Um Sönghátíð í Hafnarborg:

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri. Hátíðin 7. – 15. júlí 2018 býður upp á sjö tónleika og fjögur námskeið. Á tónleikunum koma fram m.a. Kristinn Sigmundsson, Þóra Einarsdóttir, Symphonia Angelica, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Björk Níelsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Funi, Duo Atlantica og sönghóparnir Cantoque og Olga Vocal Ensemble. Hátíðin býður upp á master class fyrir unga söngvara og söngnemendur með Kristni Sigmundssyni, söngnámskeið fyrir áhugafólk með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, söngsmiðju fyrir 6-12 ára börn með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga og íslenska þjóðlaganámskeiðið Syngjum og kveðum saman með Báru Grímsdóttur og Chris Foster. Hátíðin heldur einnig úti YouTubestöð með viðtölum við söngvara um söngtækni. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir en meðstjórnandi er Francisco Javier Jáuregui. www.songhatid.is