Tix.is

Um viðburðinn

Franski píanistinn Jean-Yves Thibaudet hefur um áratuga skeið verið einn sá fremsti á heimsvísu. Hljóðritanir hans hafa selst í metupplögum og hann hefur haldið tónleika með stjörnulistamönnum á borð við Joshua Bell, Renée Fleming og Ceciliu Bartoli. Árið 2011 frumflutti Thibaudet píanókonsert nr. 3 eftir skoska tónskáldið James MacMillan, litríkt og stórbrotið verk innblásið af aldagömlum kirkjusöng og trúarsiðum kaþólskra. Tónlist MacMillans er sérlega litrík og eftir frumflutninginn skrifaði einn gagnrýnandi að verkið væri „yfirflæðandi af litum og áhugaverðum augnablikum“. Það er sannarlega tilhlökkunarefni að Thibaudet skuli flytja þetta verk á Íslandi og að samverkamaður hans hér sé einmitt Osmo Vänskä, heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem einnig stýrði frumflutningnum. 

„Hetjuhljómkviða“ Beethovens er eitt af tímamótaverkum tónlistarsögunnar, kynngimagnað verk sem sprengdi öll viðmið um það hvað sinfónía átti að vera. Innblásturinn að verkinu er sagður hafa verið sjálfur Napóleón, en þegar hann tók sér keisaranafnbót dró Beethoven tileinkunina til baka. Tónlistin er þó eftir sem áður innblásin af ímynd hetjunnar, kraftmikil og djörf. Tónleikarnir hefjast á stemningsríku verki Kaiju Saariaho, einu margverðlaunaðasta samtímatónskáldi Norðurlanda. Hér sækir hún innblástur í norrænan vetrarhiminn og viðbrögð gagnrýnenda hafa öll verið á einn veg: „dásamlega fagurt næturljóð með impressjónísku ívafi“ og „einhver áhrifamesta tónlist sem Saariaho hefur samið til þessa.“

EFNISSKRÁ
Kaija Saariaho Ciel d’hiver (Vetrarhiminn)
James MacMillan Píanókonsert nr. 3, „Leyndardómar ljóssins“
Ludwig van Beethoven Sinfónía nr. 3, „Hetjuhljómkviðan“

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Osmo Vänskä 

EINLEIKARI
Jean-Yves Thibaudet 

Tónleikakynning í Hörpuhorni » 23. maí kl. 18:00