Tix.is

Um viðburðinn

Vorblót Stravinskíjs er meðal dáðustu hljómsveitarverka 20. aldar og um leið eitt hið áhrifamesta; Pierre Boulez kallaði það „fæðingarvottorð nútímatónlistar“. Tónlistin er kröftug og spennuþrungin, hefur að geyma krassandi hljóma og óvæntan hryn, en mörg stefjanna eru sótt í rússnesk og litháísk þjóðlög. Í verkinu er lýst fornri helgiathöfn þar sem valin er ein úr hópi ungra meyja til að dansa sig til dauða – og tryggir þannig komu vorsins. Flutningur Vorblóts á Íslandi telst ávallt stórviðburður, ekki síst þegar íslenskur hljómsveitarstjóri er við stjórnvölinn.

Daníel Bjarnason hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem einn fremsti tónlistarmaður landsins. Verkið Bow to String hefur hlotið mikla athygli á undanförnum árum og hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi í útsetningu fyrir selló og sinfóníuhljómsveit. Daníel samdi verkið fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur sem er einn fremsti sellisti Íslands. Hún heldur tónleika víða um heim, er m.a. fastagestur í Carnegie Hall og kom fram með Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles á rómaðri Íslandshátíð þeirra. Upptaktur að tónleikunum er svo hið undurfagra og kyrrláta Fratres eftir Arvo Pärt sem er ein hans allra fegursta tónsmíð, dáleiðandi tilbrigði um sex takta stef.


Breyting á efnisskrá: Upphaflega stóð til að Pekka Kuusisto myndi flytja fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar á tónleikunum en hann þurfti að aflýsa komu sinni vegna handarmeins. Í hans stað leikur Sæunn Þorsteinsdóttir Bow to String eftir Daníel.


Tónleikarnir verða teknir upp í mynd og streymt beint hér á vef hljómsveitarinnar ásamt því að vera útvarpað á Rás 1.

EFNISSKRÁ
Arvo Pärt Fratres
Daníel Bjarnason Bow to String
Ígor Stravinskíj Vorblót

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Daníel Bjarnason

EINLEIKARI
Sæunn Þorsteinsdóttir