Tix.is

Um viðburðinn
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fimmta sinn. Að þessu sinni sóttu alls fjórtán leikfélög um að koma til greina við valið með sextán sýningar. Formaður dómnefndar var Björn Ingi Hilmarsson leikari og leikstjóri, en með honum í dómnefnd sátu þrír leikarar Þjóðleikhússins, þau Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.

Mystery boy
 eftir Smára Guðmundsson í leikstjórn Jóels Sæmundssonar og flutningi Leikfélags Keflavíkur.

MYSTERY BOY (Yfirnáttúruleg ástarsaga)

Kreysí keyrir í gegnum dimman og yfirgefinn skóginn á nýja mótorhjólinu sínu. Keyrir burt frá öllu ruglinu, nú ætlar hún að snúa við blaðinu. Loksins verður hún frjáls, eins og vindurinn sem fýkur um hárið hennar. Frjáls. En hvert er hún komin? Þetta eru ókunnugar slóðir. Hún er týnd. Skógurinn og myrkrið byrja að verða yfirþyrmandi. Hún stoppar hjólið stígur af því og sér glitta í eitthvað við vegbrúnina. Sólgleraugu. Hún beygir sig eftir þeim og sér þá ljós inn á milli trjánna. Hlátrasköll. Þarna er líf. Þarna er bær. Hvaða bær er þetta? Hann er ekki merktur á neinu korti. Eru þetta talandi kettir? Þar kom að því ég er búin að missa vitið, kallar Kreisý inn í nóttina. Þannig hefst æsispennandi atburðarás þar sem Kreisý, hundurinn Olli og hinir talandi kettir sogast inn í fléttu þar sem örlagahjólin snúast hratt og óttinn virðist yfirtaka allt. En þar sem er ótti er líka von og hún virðist liggja hjá dularfullum manni sem kallar sig Mystery Boy. Í sameiningu reyna Kreisý og Mystery Boy að komast úr þessum bæ sem verður alltaf undarlegri og hættulegri með hverri mínútunni. Þessi saga er lauslega byggð á reynslu minni af því að vera í meðferð á Vogi þó að það komi aldrei beint fram. Bærinn í sögunni er meðferðarheimilið, það eru allir í sloppum og bara einn sími á svæðinu. Kreisý er búin að missa tökin á lífinu og fer í meðferð og þar hittir hún strák sem er í sömu stöðu. Saman taka þau á fíkninni í leit af betra lífi. Þetta er söngleikur sem inniheldur mikið grín en er þó með drungalegan undirtón. Tónlistin er flest öll samin á gamla skemmtara og gefur þannig söngleiknum sérstakan tón