Tix.is

Um viðburðinn

Það verður heimilislegt stuð á árlegu kjólaballi Heimilistóna í Gamla bíó 16. júní næstkomandi. Þetta eru fyrstu tónleikar sveitarinnar eftir að hafa slegið eftirminnilega í gegn með Kúst og fæjó í Söngvakeppninni fyrr á árinu.

Hljómsveitin hefur starfað í rúm 20 ár og sérhæfði sig framan af í erlendum smellum frá gullaldarárum rokksins við texta sem þær þýddu af mikilli nákvæmni yfir á okkar ástkæra og ilhýra. Síðustu ár hafa þær frumsamið nokkur lög í svipuðum dúr og má þar nefna Sumar, Bernaise, og Ringlaða konan.

Leynigesturinn verður á sínum stað og ýmsir þekktir gestaspilarar koma við sögu en einnig verður happadrætti á staðnum.

Kjólaböllin hafa svo sannarlega fest sig í sessi og glæsileikinn er ávallt í fyrirrúmi.

Leikkonurnar Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa Heimilistóna, en þær leika á fjölum ýmissa leikhúsa, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á milli þess sem þær semja lög og æfa. Þær hvetja alla til að mæta: „Þá er bara að taka fram dansskóna og gera sokkabuxurnar klárar fyrir 16. júní, finna kjólinn, eyrnalokkana, jakkafötin, kampavínsglösin, redda pössun, fara í fyrirpartý … og skella sér í Gamla bíó.“

Hlökkum til að sjá ykkur!