Tix.is

Um viðburðinn

Móðirin er yfirskrift kvöldstundar með nöfnunum Önnu Sigríði Pálsdóttur sóknarpresti og Önnu Sigríði Helgadóttur söngkonu. Móðirin í öllum myndum, í fortíð og nútíð, María guðsmóðir og mæður okkar allra.

Séra Anna Sigríður Pálsdóttir fyrrum Dómkirkjuprestur og núverandi starfsmaður Lausnarinnar hefur átt farsælan feril sem prestur og ráðgjafi. Hún hefur meðal annars sinnt ráðgjöf til aðstandenda áfengis-og fíkniefnaneytenda, haldið vinsæl námskeið um meðvirkni og sálgæslu fyrir fólk í sorg og skilnaðarferli.

Anna Sigríður Helgadóttir söngkona hefur sungið með fjölda kóra og tekið þátt í margskonar tónlistarflutningi, s.s. einsöngstónleikum, djasstónleikum, óperu- og óperettuuppfærslum, kirkjutónleikum, gospeltónleikum o.fl., á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Árið 2000 söng hún hlutverk Biöncu í uppfærslu Íslensku Óperunnar á óperunni “The rape of Lucretia” eftir Benjamin Britten og árið 2002 söng hún hlutverk Mary í uppfærslu Listahátíðar á óperunni “Hollendingurinn fljúgandi” eftir Richard Wagner.

Frá 2001 til 2012 starfaði Anna Sigríður sem tónlistarstjóri við Fríkirkjuna í Reykjavík, þar sem hún söng við athafnir, stjórnaði kór og hafði umsjón með tónlistarlífinu í kirkjunni. Hún söng í mörg ár með sönghópnum Hljómeyki og er ein af sönghópnum Emil og Anna Sigga og Bjargræðiskvartettsins. Að auki hefur hún starfað sem söngkona og sungið víða s.s. við kirkjuathafnir, tónleika og margs konar uppákomur.

Fyrir þá sem vilja mæta snemma er boðið uppá gleðistund (happy-hour) í veitingastofunum frá 17-19, lifandi tónlist með Pálmari Ólasyni frá 18.30-20 og matseðil kvöldsins.