Tix.is

Um viðburðinn

Uppskeruhátíð Karlakórs Reykjavíkur er sérlega fjölbreytt og hátíðleg þetta vorið enda stendur mikið til. Í ágúst heldur kórinn til Austurríkis og syngur á hátíðartónleikum í Graz og á Beethoven tónlistarhátíðinni í Bad Aussee, sem í ár er tileinkuð minningu Mariu Callas.  Austurríkisferðin er farin til heiðurs Páli Pampichler Pálssyni sem var stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur í aldarfjórðung, en býr nú í heimaborg sinni, Graz.

Íslensk sönglög eru á efnisskránni fyrir hlé. Þar á meðal eru tvö verk eftir Pál. Annað þeirra, Nei, smáfríð er hún ekki, við ljóð Hannesar Hafstein, er nýjasta verkið á efnisskránni og var samið sérstaklega fyrir kórinn á 90 ára afmæli hans fyrir tveimur árum. Elsta verkið, Ár vas alda, á rætur í sjálfri Völuspá og spanna verkin því gjörvalla sögu þjóðarinnar.

Eftir hlé flytur kórinn fjölbreytt úrval erlendra meistaraverka eftir Beethoven, Mozart, Bruckner, Verdi og fleiri.

Með kórnum leikur að vanda Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Sigurður Ingvi Snorrason leikur á klarínettu.  Einsöngvari að þessu sinni er fyrrverandi kórfélagi, Sveinn Dúa Hjörleifsson, sem nú syngur við óperuna í Leipzig í Þýskalandi.  Stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur er Friðrik S. Kristinsson.