Tix.is

  • 7. apríl kl. 21:00
Um viðburðinn

Trommarinn og stuðboltinn Arnar Þór Gíslason verður 40 ára 8. apríl næstkomandi og af því tilefni verður partý afmælisgigg laugardaginn 7. apríl í Bæjarbíói þar sem hann ætlar að vera þar sem honum líður best, á bakvið trommusettið!

Með Adda á sviðinu verða 10 hljómsveitir og má segja að þetta sé yfirlitssýning yfir það sem hann hefur verið að að dunda í músik síðustu áratugina tvo eða svo.

Miðaverð er aðeins 5000 kr. og fer hver einasta króna í góðgerðarmálefni sem eiga það sameiginlegt að efla hafnfirsk ungmenni í gegnum tónlist, en sjálfur er Addi fyrrverandi orkumikill hafnfirskur unglingur sem fann sína fjöl í tónlistinni. Lesa má nánar um þessi málefni hér fyrir neðan.

Hljómsveitirnar eru:

Dr. Spock, Ensími, Hjörvar, Írafár, Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar, Lára Rúnars, Mugison, Pollapönk, Rúnar Þórisson og Súrefni

Miðasala hefst kl. 15 í dag, föstudaginn 9. mars, á Tix.is. Mjög takmarkað magn miða er í sölu þar sem aðeins er um þessa einu tónleika að ræða, en þeir sem eiga ekki heimangengt eða ná ekki í miða geta engu að síður lagt málefninu lið með því að fylgja þessum link: https://tix.is/is/buyingflow/tickets/5636/ 

Málefnin sem Addi er að safna fyrir eru eftirfarandi: 

Músik og Mótor er félagsmiðstöð sem sinnir tónlist og mótorsporti. Í tónlistarhlutanum geta unglingahljómsveitir fengið æfingaraðstöðu endurgjaldslaust. Í rýminu er lítið upptökustúdíó þar sem unga fólkið getur tekið upp demó og kynnst upptökuheiminum. Öll tæki og tól sem unga fólkið hefur aðgang að eru orðin gömul og er markmiðið að uppfæra búnaðinn.

Fjölgreinadeild Lækjarskóla er staðsett í Menntasetrinu við lækinn. Deildin hefur frá árinu 2004 þjónað unglingum í 9. og 10. bekk úr grunnskólum bæjarins.

Deildin hefur þjónað þeim unglingum sem ekki ná að fóta sig í sínum hverfisskóla og þurfa aðra nálgun í náminu. 200 unglingar hafa útskrifast úr deildinn og óhætt er að segja að lang stærsti hluti þeirra finnur sinn tilgang í lífinu, finnur framhaldsnám við hæfi eða störf í samfélaginu.

Fjölgreinadeild Lækjarskóla leggur áherslu á að ENGINN GETUR ALLT – ALLIR GETA EITTHVAÐ!