Tix.is

Um viðburðinn

Scotch on Ice Comedy Festival

Fyrsta skosk/íslenska uppistandshátíðin! 

Scotch on Ice uppistandshátíðin verður haldin í Reykjavík 8.-10. febrúar. Hópur grínista frá Skotlandi ætlar þá að sækja Íslendinga heim til að kynnast íslensku gríni og hjálpa okkur að hlæja í skammdeginu. Íslenskir uppistandarar slást í hópinn á sýningunum því ef einhverjar tvær þjóðir eiga samleið í gríni, þá eru það Ísland og Skotland!

Stórsýningin í Hörpu verður enginn smá lokahnykkur á hátíðinni. Kynnir verður Jojo Sutherland, fósturmóðir allra uppistandara í Edinborg. Bylgja Babýlons og Jono Duffy verða fulltrúar Íslands á þessari lokasýningu gestanna frá Skotlandi en til að ljúka kvöldinu mætir stórstjarnan Tom Stade á svæðið! Tom birtist reglulega á skjánum í þáttum á borð við Live at the Apollo og Michael McIntyre´s Roadshow, hann á að baki langan feril sem uppistandari í Bretlandi og er eftirsóttur um allan heim. Hans nýjasta sýning, I Swear, sló í gegn á síðustu Edinborgarhátíð og rakaði inn stjörnum á nýloknu sýningarferðalagi um Bretland. Nú ætlar Tom að halda út í heim með sýninguna og það er því frábært tækifæri og heiður að fá þennan magnaða uppistandara til Íslands á þessum tímapunkti því hann hefur aldrei verið í betra formi!

*Ath. allt efni verður flutt á ensku

Hugarafl

Scotch on Ice uppistandshátíðin styður Hugarafl, félagasamtök fólks sem nýta valdeflingu, jafningasamstarf og batanálgun að bættu geðheilbrigði. Um leið og þú kaupir miða á sýningu Scotch on Ice geturðu valið að styrkja Hugarafl um 500 krónur eða meira. Einnig hvetjum við þig til að bjóða með þér vini eða vinkonu sem þarf á því að halda að hlæja! 

Kvíði, þunglyndi og aðrar andlegar áskoranir eru grínistum oft kunnug og þau þekkja betur en mörg önnur þörfina fyrir hlátur og að sjá hið spaugilega í lífinu. Þau vilja því gjarnan styðja við starfsemi sem hjálpar fólki í átt að bættu geðheilbrigði til að vera virkt í samfélaginu og njóta lífsins. Skammdegið er erfiður árstími fyrir mörg okkar og það er einmitt þá sem við þurfum helst á upplyftingu að halda – en þegar við þörfnumst þess mest getur einmitt verið erfiðast fyrir okkur að fara út á meðal fólks og þá er gott ef vinir og ættingjar drífa okkur af stað – svo hvað er betra en að hlæja saman eina kvöldstund?