Tix.is

Um viðburðinn
Dömur og herra er burlesque-hópur sem hefur verið starfandi frá byrjun ársins 2017 og mætti kalla þau ungliðahreyfingu íslensku burlesque-senunnar. Þau blása nú til sinnar þriðju sýningar á árinu og að þessu sinni ætla þau að taka fyrir jólahátíðina og allt sem henni fylgir, guðspjöll, góðan mat og glens.

Meðlimir hópsins eru sannkallaðar kanónur þegar kemur að skemmtun og hafa m.a. komið fram með Reykjavík Kabarett, Drag-Súg og á Rauða skáldahúsinu. Það má því búast við fjölbreyttum atriðum, allt frá klassísku burlesque og dúskasveiflum yfir í létt grín að íslenskum jóla- og áramótaveruleika.

Boylesque-undur Stokkhólms, hinn íslenski The Saint Edgard mun að þessu tilefni koma fram með hópnum og mun vafalaust heilla alla upp úr skónum. Dömurnar og herrann hlakka einstaklega til að dansa inn í nýja árið svo ekki láta þessa sýningu framhjá þér fara!

Engin krafa er gerð um íslenskukunnáttu á sýningu sem þessari enda sjónræn með eindæmum, sætaval er frjálst og takmarkað framboð á miðum. Húsið opnar klukkutíma fyrir sýningu og er hún bönnuð þeim sem eru yngri en 20 ára. Myndatökur eru með öllu bannaðar á sýningunni. Vert er að taka fram að sýningin er ekki fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir dónabröndurum, guðlasti eða undrum mannslíkamans.