Tix.is

Um viðburðinn

HÝR JÓL

Jólaglimmerinu rignir yfir bæinn þann 9. desember nk. þegar jólatónleikar Hinsegin kórsins fara fram í Lindakirkju í Kópavogi. Á boðstólnum verða hýrir jólatónar í bland við dægurlög og popp en búast má við miklu fjöri og ljúfum tónum sem áður hafa verið fluttir af meisturum á borð við Stevie Wonder, Pat Benatar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bee Gees, The Weather Girls og Elton John!

Miðaverð er 3.500 kr og fer miðasala fram hjá kórfélögum og á tix.is. Á síðustu jólatónleikum kórsins komust færri að en vildu og því um að gera að tryggja sér miða strax í dag!

Kórinn syngur undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur og meðleikari er Halldór Smárason. Með kórnum á jólatónleikunum verða Ásmundur Jóhannsson á trommum, Steinþór Guðjónsson á gítar og Jóhann Ásmundsson á bassa.

Hinsegin kórinn var stofnaður síðsumar 2011 og hefur frá þeim tíma komið víða fram, bæði hér heima og á erlendri grundu. Sumarið 2012 tók kórinn þátt í hinsegin dögum í Færeyjum en tveimur árum síðar steig kórinn á stokk í Dublin á alþjóðlegu kóramóti hinsegin kóra og naut þar mikillar hylli. Sumarið 2015 var Hinsegin kórinn gestakór á tónleikum breska kórsins Pink Singers sem haldnir voru í London og í ár tók kórinn þátt í fyrsta norræna hinseginkóramótinu í Helsinki. Vorið 2018 verður förinni aftur heitið á hinsegin kóramót en þá í München.

Gott hjólastóla aðgengi.