Tix.is

Um viðburðinn

Gos hófst í Vestmannaeyjum aðfaranótt 23.janúar 1973 og því lauk í byrjun júlí það sama ár.  Allan þann tíma unnu Eyjamenn og vinir þeirra hörðum höndum að því að bjarga verðmætum og vernda mikilvæg mannvirki.  Um leið og gosi var aflýst hófst fólk handa við að skipuleggja heimferð fjölskyldu og vina, því Eyjan skyldi aftur fyllast af mannlífi og verða græn.

Hvernig menn og konur höfðu orku og hugmyndaflug til að grafa upp heila Eyju með takmörkuðum mannafla og enn takmarkaðri tækjakosti er sumum hulin ráðgáta.  Og þó, ástin á þessari Eyju virðist takmarkalaus, um það vitna hundruðir ljóða og texta og við þau/þá hafa menn samið lög.  Sum þeirra verða flutt þetta kvöld, ásamt ýmsu fleiru.

Við flytjum mörg af bestu lögum Eyjanna með úrvali listamanna. 

Þórir Úlfarsson stýrir skútunni og spilar á hljómborð og með honum verða Birgir Nielsen Þórsson á trommur, Eiður Arnarsson á bassa, Jón Elfar Hafsteinsson á gítar, Kjartan Valdemarsson á hljómborð, Kjartan Hákonarson á trompet og Sigurður Flosason á Saxafón, flautu og slagverk.

Söngvararnir sem koma fram í Eldborg þetta kvöld eru Jónsi, Jóhanna Guðrún, Stefán Hilmarsson, Eyjabræðurnir Helgi og Hermann Ingi Hermannssynir, Eyjakonan Guðlaug Ólafsdóttir, Eyjamaðurinn Kristján Gíslason, Alma Rut Kristjánsdóttir og Karlakór Vestmannaeyja.  Sérstakir gestir verða svo Eyjapeyjarnir í Hröfnum.  Hljómsveitina Hrafna skipa Hlöðver Guðnason, bræðurnir Georg og Vignir Ólafssynir og bræðurnir Helgi og Hermann Ingi Hermannssynir.

Árið 1973 var að sjálfsögðu haldin Þjóðhátíð í Eyjum, en bara tekið eitt kvöld, enda var nóg að gera og Herjólfsdalur enn fullur af vikri.  Það ár og næstu þrjú ár þar á eftir var hátíðin haldin á Breiðabakka.  Árið 1974 samdi Gylfi Ægisson Þjóðhátíðarlagið og þykir það enn í dag eitt það besta, enda lýsir textinn svo vel stemningunni hjá Eyjamönnum árin eftir gos. Bróðir Gylfa, Lýður Ægisson, hefur einnig samið Þjóðhátíðarlag, árið 1985. Gylfi og Lýður sömdu mörg góð Eyjalög og við kíkjum aðeins í kistuna þeirra.

Já, það verður sannkölluð Eyjastemning í Eldborgarsal Hörpu þann 20. janúar næstkomandi.  Þetta stærsta árgangs- og ættarmót Evrópu er löngu orðin fastur liður hjá mörgum. 

Umsjón viðburðar – Stóra sviðið.