Tix.is

Um viðburðinn

SÓNÖTUR OG LJÓÐRÆN SMÁLÖG

Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Edda Erlendsdóttir píanóleikari hafa um árabil verið í fremstu röð íslenskra hljóðfæraleikara bæði sem einleikarar og í kammertónlist. Þær eiga að baki langt og farsælt samstarf sem hófst á Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri.
Geisladiskur þeirra með verkum eftir Kodaly, Martinu, Enescu og Janacek hlaut einróma lof gagnrýnenda bæði á Íslandi og í Frakklandi og  fékk Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2004.
Þær munu hér flytja verk fyrir selló og píanó sem spanna breitt tímabil en eiga það sameiginlegt að vera ljóðræn.

Efnisskrá

Sónata fyrir selló og píanó eftir Þórð Magnússon var upprunalega pöntuð af japanska píanóleikaranum Izumi Tateno og þá fyrir selló og vinstri handar píanó.   Verkið var frumflutt í þeirri mynd á tónleikum í Tokyo af Izumi og Bryndísi Höllu Gylfadóttur.
Verkið skiptist í 5 þætti sem byggja mjög lítið á hinu staðlaða sónötuformi klassíska tímans.  Í rauninni fylgir tónskáldið frekar þeirri hugmynd að skilgreiningin á sónötu sé hvað svo sem tónskáldinu dettur í hug að setja á blað.
Fyrsti kaflinn er hægur og draumkenndur, annar kaflinn dans, sá þriðji er dimmur, fjórði dyntóttur og sá fimmti dularfullur.
Tónskáldið umritaði verkið fyrir selló og tveggja handa píanó árið 2017.

Sónata  fyrir selló og píanó eftir Frank Bridge  samin árið1917 er afar rómantísk og þykir mörgum þar gæta áhrifa frá Rachmaninoff.  Bridge varð ungur fyrir miklum áhrifum af Brahms og póst- rómantíska skólanum sem heyrist vel í þessu verki.

Ungverska tónskáldið Franz Liszt sem er helst þekktur fyrir píanóverk sín samdi alls 82 sönglög. Hann  umritaði nokkur þeirra fyrir önnur hljóðfæri og gefst hér tækifæri til að heyra 3 verk sem hann umritaði fyrir selló og píanó.

Þegar Johannes Brahms  dvaldi árið 1886 sumarlangt við vatnið Thoun í svissnesku Ölpunum, gaf stórkostleg náttúran honum innblástur til að semja nokkur af sínum alfallegustu sönglögum og kammerverkum þar á meðal Sónötu nr.2 fyrir selló og píanó.