Tix.is

Um viðburðinn

Dr. Gunni (Gunnar Lárus Hjálmarsson, 1965- ) ætlar að trylla Akureyringa, viðloðandi útlendinga og nærsveitamenn á Græna hattinum fimmtudagskvöldið 26. Október. LOST sér um upphitun.

Dr. Gunni kom fyrst fram á sviði í Kópavogsbíói í apríl 1980. Þá var hans fyrsta hljómsveit Dordinglar á sviði með Fræbbblunum og Utangarðsmönnum, en þetta var svo snemma á ferli Bubba Morthens að Gunni 14 ára hafði bara aldrei séð þennan töffara áður. Næst lá leiðin í pönkbandið F/8, svo í nýbylgjusveitina Geðfró, en þar steig Sigga Beinteins sín allra fyrstu spor. Eftir að hafa rekið Siggu úr bandinu var Gunni loks samþykktur sem skásti kosturinn í stöðinni til að þenja röddböndin og úr varð hljómsveitin Svart hvítur draumur, eða S.H. Draumur, eins og snemma var farið að kalla bandið. Draumurinn starfaði til 1988 og kom m.a. út plötunni GOÐ sem nýlega var kosin 8-9. Besta plata Íslandssögunnar á Rás 2. Platan GOÐ fagnar um þessar mundir 30 ára afmæli.

Eftir Drauminn kom Gunni bæði fram með trommuheila (sem Dr. Gunni) og var í hljómsveitinni HAM í nokkra mánuði sumarið 1988. Gunni spilaði einu sinni með HAM og var þar frumflutt útgáfa HAM á ABBA-laginu “Voulez-Vous”.

Næst gengu Gunni og Biggi Baldurs trommuleikari í eina sæng með Ara Eldon, sem áður hafði verið bassaleikari unglinga-pönkbandsins Sogbletta. Þetta var hljómsveitin Bless, sem lafði 1988-1991. Næst tók við sólóstúss með trommuheilann, bæði innanlands og í Finnlandi og víðar því finnska merkið Bad Vugum í Oulu, tók Dr. Gunna og Dr. Rhythm (trommuheilann) upp á arma sína og gerði 2 litlar plötur með þessum hávaða og öskrum. Ari Eldon spilaði með á bassa.

Árið 1993 kynntust Gunni og Þór Eldon, áður gítarleikara Fan Houtens Kókó og Sykurmolanna svo úr varð hljómsveitin unun með Heiðu Eiríks sem söngkonu. Unun gerði ágætis mót á milli 1994-1999, bæði innanlands og utan með lög eins og Lög unga fólsins, Ást í viðlögum og Hann mun aldrei gleym’enni, sem öðlingurinn Rúnar Júlíusson söng.

Árið 1997 gerði Gunni plötuna Abbababb! Sem átti að höfða til barna en að vera svo skemmtileg að foreldrar gætu líka haft gaman að henni. Þetta plan gekk eftir, Abbababb! kom út í október 1997 (20 ára afmæli í ár!) og Prumpulagið varð algjör megahittari sem börn eru enn þann dag í dag með á dagskrá, enda viðlagið (prumpuhljóð), eitt það fyrsta sem bæði mannkyningu og börnum þykir skemmtilegt. Abbababb! Hefur selst í gull (5000 eintök) og er eina plata Dr. Gunna sem hefur selst svo vel.

Eftir að unun hætti um haustið 1999 var komið að ögurstund hjá Dr. Gunna. Hann hafði verið í bransanum í 20 ár og hvorki haft tíma til að taka bílpróf né koma sér í fast samband. Kemur þá ekki ein vestfirsk Lufsa sem bjargaði málunum á 21. öld. Tónlistarstúss var þar af leiðandi ekki jafn mikið í fókus, heldur brúðkaup (2002), frumburður (2003), íbúðar- og bílakaup, og annað barn (2007). Gunni fór líka að kreista út úr fróðleikssöfnun sinni í 25 ár. Gerði bókina Eru ekki allir í stuði? (2001) og byrjaði með Popppunkt 2002, ásamt Greifanum Felixi Bergssyni. Svo kom enn betri bók um íslenskt popp og rokk (Stuð vors lands 2010) og svo 12 klukkutíma langir heimildaþættir, Popp og rokksaga Íslands, sem sýndir voru á RÚV veturinn 2015-2016. Á sama tíma var Gunni einn af dómurunum í Ísland Got Talent.

Þrátt fyrir þetta stúss kom platan Stóri hvellur með Dr. Gunna (og hljómsveit) 2002 og platan Inniheldur (2008), sem var frekar léleg eftirhruns-plata. Árið 2013 kom önnur skemmtiplata fyrir börn og fullorðna, Alheimurinn!, og þar var það lagið Glaðasti hundur í heimi (með Frikka Dór) sem sló algjörlega í gegn sumarið 2013, svo mörgum varð nóg um.

Platan Dr. Gunni í sjoppu kom út þegar Gunni varð fimmtugur 2015 og platan/málverkasýningin Atvik var afhjúpuð í nóvember 2016. Síðustu 15 mánuði hefur Gunni tekið út afplánun íslenskra listamanna og unnið fasta vinnu, en í september 2017 lauk þeirri dellu og Dr. Gunni er orðinn aftur að verktaka með sinn eigin heila sem aðalverkfæri.

Á Græna hattinum þann 26. Október verður allt undir af ferli Dr. Gunna. Þetta verður einstakt tækifæri til að sjá og heyra lög af ferlinum öllum því auk Gunna, sem syngur og spilar á gítar, verða á sviðinu þeir Birgir Baldursson trommari (S.H.Draumur, Bless og Sálin hans Jóns míns), bassaleikarinn Grímur Atlason (Rosebud og Iceland Airwaves boss sl. 8 ár) og Albert Finnbogason (Grísalappalísa).

Um upphitun sér hljómsveitin LOST með þeim Rögnvaldi Gáfaða og Kristjáni Pétri, en þeir eru lifandi goðsagnir á Íslandi. LOST er eldgömul hljómsveit en eins og allir vita er engin leið að hætta þessari vitleysu að spila rokk og ról.

Græni hatturinn opnar kl. 20. Lost byrjar kl. 21 og búast má við Dr. Gunna og félögum á svið um kl. 22.00 Miðaverði er stillt í algjört óhóf, heilar 2.500 krónur kostar inn. Forsala er hafin á tix.is og grænihatturinn.is