Tix.is

Um viðburðinn

Nú þegar sólin er farin að lækka og veðrið að kólna fannst þessum hópi ungra tónlistarmanna upplagt að bjóða uppá hausthressingu í formi ljúfra tóna. Hressingin fer fram í Fríkirkjunni í Reykjavík miðvikudagskvöldið 20. september kl 20.00.

Hópurinn samanstendur af krökkum sem hafa stundað eða stunda enn háskólanám í tónlistarborgunum Berlín, Leipzig og Vínarborg en eru nú öll stödd á Íslandi yfir sumartímann. ?Dagskrá tónleikanna verður fjölbreytt og skemmtileg. Það verður sungið, spilað á fiðlu og píanó og flakkað á milli Bach, Mozart, Sibelius, Schubert, Wolf og annara meistara, íslenskra sem elrendra. 

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Miðaverð:

Almennt miðaverð: 2000 kr
Nemendur: 1500 kr
Börn: Ókeypis

Um flytjendur:

Jóna G. Kolbrúnardóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún var ung að árum þegar hún hóf að syngja og hefur sungið í ýmsum kórum bæði sem meðlimur og einsöngvari. Hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2014 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur. Haustið 2014 hélt hún í framhaldsnám til Vínarborgar þar sem hún stundar söngnám við Tónlistarháskólann undir leiðsögn Univ. Prof. Gabriele Lechner. Jóna hefur tekið þátt í ýmsum meistaranámskeiðum m.a. hjá Anne Sofie von Otter og Chritine Schäfer. Haustið 2016 tók hún þátt í uppsetningu á óperunni Die Kluge eftir Carl Orff þar sem hún söng titilhlutverkið. Jóna kom fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar í Janúar síðast liðinn. Hún hefur síðustu tvö sumur komið fram á tónleikum í tónleikaröðinni Pearls of Icelandic Songs í Hörpu. Hún söng bakraddir inn á Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur og tók svo þátt í þriggja ára tónleikareisu sem fylgdi á eftir plötunni.
Kristín Anna Guðmundsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1993. 14 ára gömul hóf hún söngnám hjá Hörpu Harðardóttur. Árið 2013 lauk hún svo 8. stigsprófi frá Söngskólanum í Reykjavík með ágætis einkunn undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur og Hólmfríði Sigurðardóttur. Hún hefur sótt einkatíma hjá gestakennurum Söngskólans í Reykjavík og einnig erlendis. Samhliða Söngskólanum sótti hún einnig tíma hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, söngkonu.
Frá fjögurra ára aldri hefur Kristín Anna sungið í kórum Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og Árna Heiðars Karlssonar. 2016-2017 söng hún einnig í Kammerkór Digraneskirkju undir stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur. Í báðum kórum hefur hún sungið einsöng.
Sem félagi í kvennakórnum Graduale Nobili söng Kristín Anna á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophilia, árið 2011. Í kjölfarið tók við tónleikarferðalag víða um heim um tveggja ára skeið.
Krístín Anna stundar nú söngnám við tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín undir leiðsögn Prof. Uta Priew. Einnig hefur hún fengið leiðsögn frá öðrum kennurum skólans, má þar nefna Wolfram Rieger, Eva Wolak, Anneliese Fried og Scot Weir. Í haust verður þar sett upp Hans og Gréta eftir Humperdinck og mun Kristín Anna fara með hlutverk Grétu.
Kristín Sveinsdóttir hóf að syngja árið 1997 með Krúttakór Langholtskirkju. Síðan þá söng hún með öllum kórum kirkjunnar og kom þar oft á tíðum fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Kristín lauk burtfararprófi fá Söngskólanum í Reykjavík haustið 2013 undir  leiðsögn Hörpu Harðardóttur. 2013-2014 sótti Kristín söngtíma til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur. Haustið 2014 hóf Kristín Bacherlornám í klassískum söng við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá Prof. Margit Klaushofer. Kristín tók sér ársleyfi frá skólanum í Vín til að syngja við óperustúdíóið Accademia del Teatro alla Scala í Mílanó. Þar kom hún fram sem einsöngvari á ýmsum tónleikum og óperuuppfærslum á Scala, m.a. sem  2. dama í Töfraflautunni eftir Mozart. Kristín söng bakraddir inn á Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur og tók svo þátt í þriggja ára heims- og tónleikareisu sem fylgdi á eftir plötunni. Kristín tók einnig þátt í að stofna sönghópinn Lyrika og starfaði með honum þar til leiðin lá til Vínar. Í haust mun Kristín fara með hlutverk Hans í uppfærslu Tónlistarháskólans í Vín á óperunni Hans og Grétu eftir Humperdinck.
Bjarni Frímann Bjarnason er fæddur í Reykjavík árið 1989. Hann hóf að leika á fiðlu fjögurra ára gamall og stundaði nám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2009. Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Vorið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Sama ár hlaut hann undirleikaraverðlaunin í ljóðasöngkeppni sem kennd er við Paulu Salomon-Lindberg í sömu borg.
Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann stjórnar strengjasveitinni Skark, sem hefur á undanförnum árum staðið fyrir nýstárlegum flutningi nútímatónlistar, en hefur einnig stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Bjarni mun nú í haust stjórna Toscu í nýrri uppfærslu Íslensku óperunnar.
Pétur Björnsson fæddist á Akranesi árið 1994. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2014. Pétur útskrifaðist með framhaldspróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík haustið 2015 en kennarar hans þar voru Guðný Guðmundsdóttir og Ari Þór Vilhjálmsson. Frá og með sama hausti hefur hann stundað nám við Tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Elfu Rúnar Kristinsdóttur.
Pétur hefur verið varamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 og er virkur meðlimur í strengjasveitinni Skark frá árinu 2013. Þá hefur hann leikið með Ensemble KONTRASTE-hljómsveitinni í Nürnberg. Pétur hefur gegnt stöðu konsertmeistara í nemendahljómsveitum Tónlistarskólans í Reykjavík, ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og háskólahljómsveitinni í Leipzig. Hann kom fram sem einleikari með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík haustið 2014 þegar hann lék fiðlukonsert Dvoráks og með Stradivari Ensemble í Vancouver í febrúar 2016 þar sem hann lék Rondo Capriccioso eftir Saint-Saëns.
Pétur hefur sótt ýmis námskeið bæði á Íslandi og erlendis og meistaranámskeið hjá tónlistarmönnum í fremstu röð. Þar má nefna Christian Tetzlaff, Ilya Gringolts, Carolin Widmann, Jorja Fleezanis, Philippe Graffin, Sergei Ostrovsky, Robert Rozek og Mariönu Sirbu.