Tix.is

Um viðburðinn

Heima í gamla bænum

Menningarfélag Keflavíkur stendur fyrir heimatónleikum í gamla bænum í Keflavík á Ljósanótt þar sem íbúar bjóða fólki heim í tónleikaveislu.

Sjö hljómsveitir leika í fimm húsum í gamla bænum og nágrenni í Keflavík. Hver hljómsveit leikur tvisvar, 40 mínútur í senn. Dagskrá hefst kl. 21:00 og aftur kl. 22:00. Gestir geta því valið amk tvo tónleika eða gengið á milli og fengið brot af öllu.

Fram koma þessir listamenn:
Par-ðar
Jónína Aradóttir
Bjartmar Guðlaugsson
Már, Geir Ólafsson og Kristján Jóhannsson
Jón Jónsson
Pandóra
Ofris
Stebbi og Eyfi

Gestir fá armband til að rölta á milli húsa og kort af svæðinu í Duushúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar á opnunartíma.

Frekari upplýsingar veitir Guðný Kristjánsdóttir í síma 8691006.

Samstarfs- og styrktaraðilar heimatónleikanna eru; Reykjanesbær, ISAVIA , K. Steinarsson, Íslandsbanki, Beint úr sjó og Hótel Berg.

Íshússtígur 6
Már Gunnarsson, Geir Ólafsson og Kristján Jóhannsson

Már Gunnarsson 17 ára blindur tónlistarmaður í Keflavík kemur fram á heimili sínu ásamt Geir Ólafssyni og Kristjáni Jóhannssyni.

Söngvarinn og skemmtikrafturinn Geir Ólafsson hefur gefið út átta sólóplötur á sínum ferli en ný plata hans er í vinnslu og hefur hann verið þekktur fyrir skemmtilega sviðsframkomu Kristján Jóhannsson stórtenór Íslands þarf vart að kynna en hann hefur sungið í ýmsum þekktum óperuhúsum, bæði á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum og má þar nefna La Scala og Metropolitan óperuna.

Nánar:
Már Gunnarsson
Geir Ólafsson
Kristján Jóhannsson

Mánagata 1
Par Ðar
Par Ðar varð í öðru sæti í Músíktiraunum 2015 og spilar sækadelíu á einstakan hátt. Hljómsveitin sem er af Suðurnesjum leitast eftir að búa til komposisjón sem leyfir hlustandanum að finna það fallega í sjálfum sér og lífinu. Hljómsveitina skipa Arnar Ingólfsson bassi, Kristján Freyr Hjaltested gítar, Viktor Atli Gunnarsson gítar, Eyþór Eyjólfsson trommur og Sævar Helgi Jóhannsson synth/harmonium.

Jónína Aradóttir og hljómsveit
Jónína Aradóttir er sveitastelpa frá Hofi í Öræfasveit og ein af okkar upprennandi lagahöfundum á Íslandi í dag. Hún sækir oft innblástur fyrir verk sín austur fyrir fjall þar sem hún segir náttúrufegurðina óendanlega. Jónína semur texta og tónlist sjálf sem flokkast undir fólk, popp og rokk með vott af blús, allt frá ljúfum fallegum tónum í léttleika og grín. Jónína er að gefa út sína aðra plötu sem kemur út í enda sumars.

Nánar um Jónínu

Skólavegur 12
Ofris
Hljómsveitin Ofris kemur saman á ný eftir langt hlé en hún var stofnuð í Keflavík árið 1983. Ofris var fyrst og fremst tónleikasveit sem flutti eigin lagasmíðar og var dugleg að koma fram á tónleikum bæði á suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en hún spratt upp úr skólahljómsveitinni Trassarnir.

Ofris gaf út plötuna „Skjól í skugga“, sem kom út vorið 1988. Fljótlega eftir útgáfu plötunnar fór Ofris í pásu sem nú verður rofin.

Meðlimir Ofris eru:
Þröstur Jóhannesson texta- og lagahöfundur, söngvari og gítarleikari
Magnús Þór Einarsson bassaleikari
Helgi Víkingsson trommuleikari
Kristján Kristmannsson hljómborðsleikari og saxófónleikari
Guðmundur Karl Brynjarsson söngvari og gítarleikari

Nánar um Ofris

Pandóra
Pandóra er líklega vanmetnasta, og þá um leið besta, hljómsveit sem Ísland hefur alið. Hljómsveitin sem starfaði að mestu á Suðurnesjum á árunum 1987 – 1990 og gaf út tvær breiðskífur (Saga og Á íslensku) undir merkjum Geimsteins hyggst nú hefja störf á ný - eftir stutta pásu. Fyrsta tækifæri almennings til að sjá sveitina og heyra verður á Ljósanótt í Rokkheimi Rúnars Júl – og er það vel við hæfi enda Rúnar ótitlaður guðfaðir bandsins. Á þessum fyrstu tónleikum sínum í 27 ár mun Pandóra leika öll af sínum vinsælustu lögum svo sem The beginning of the Saga II, The middle of the Saga I og The Saga to the Next Town (frumflutningur). Þau 99% þjóðarinnar sem ekki hafa notið þeirrar einstöku lífsreynslu að berja þessa margrómuðu sveit augum og eyrum mega alls ekki láta þetta tækifæri framhjá sér fara – enda óvíst að það gefist aftur.

Íshússtígur 14
Jón Jónsson
Jón Jónsson er poppstjarna, hagfræðingur og fótboltastjarna og mun mæta með gítarinn og taka lagið.

Nánar um Jón

Norðfjörðsgata 11
Stebbi og Eyfi
Stebba og Eyfa þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, en þeir hafa verið í framvarðarsveit íslenskra poppara um árabil og fagna 26 ára samstarfsafmæli um þessar mundir. Upphaf samstarfsins var þegar þeir félagar sungu lagið um Nínu í Eurovision, það lag hafa þeir sungið oft síðan og er það líklega þeirra þekktasta lag. Stefán og Eyjólfur hafa haldið þræðinum öll þessi ár og komið annað slagið saman og skemmt víða um land sem og erlendis. Þeir hafa þó í gegnum árin einnig verið uppteknir á öðrum vígstöðvum, Stefán m.a. með Sálinni hans Jóns míns auk þess að hafa gert nokkrar sólóplötur og Eyjólfur einn síns liðs og með ýmsum sveitum.

Nánar um Stebbi og Eyfi

Brunnstígur 3
Bjartmar Guðlaugsson
Hinn ástsæli og vinsæli tónlistarmaður Bjartmar Guðlaugsson spilar og syngur lög sín er fangað hafa tíðarandann þá þrjá ártatugi sem hann hefur hitt þjóðina í hjartastað með útgáfu á lögum og ljóðum. Sjálfur sem fyrrum íbúi í Vestubæ Keflavíkur mun Bjartmar án efa gefa heimatónleikagestum eftirminnilega kvöldstund.