Tix.is

Um viðburðinn

VÍKING BRUGGHÚS KYNNIR:
Tveggja kvölda tónleikaveisla innan dyra í Íþróttahúsinu á Laugarvatni föstudagskvöl og laugardagskvöld 14. og 15 júlí.
Aðeins eru 800 miðar í boði og ekki selt nema á bæði kvöldin í einu
Miðaverð er frá 9.900,-

Föstudagskvöldið
20:00 Ylja
20:40 Snorri Helgason
21:30 Tilbury
22:30 Valdimar
23:30 Helgi Björnsson

Laugardagskvöldið
20:30 Hildur
21:10 Daði Freyr + Karitas Harpa
22:00 Júníus Meyvant
23:20 Jónas Sig & Ritvélar framtíðarinnar

Fagna nýrri tónleikaveislu
„Við fögnum fjölbreytilegri menningu hérna í Bláskógabyggð,” segir Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar spurður úti í tónleikaveisluna. „Við höfum reynslu af því að vinna með skipuleggjendum þessarar hátíðar á öðrum vettvangi og við vitum að þeir eru á heimavelli í tónlistinni þannig að við viljum vinna með þeim að því að á Laugarvatni verði til flott, metnaðarfullt tónleikafestival og þróað í sátt við íbúa til næstu ára. Við óskum þeim alls hins besta í undirbúningi og framkvæmd.“

Ekki útihátíð og aðeins 800 miðar í boði
Tónleikarnir fara fram innandyra bæði kvöldin í íþróttahúsinu á Laugarvatni en húsið fellur einkar vel að tónlistarflutningi þar sem stór hluti þess er viðarklæddur að innan.Tónleikahátíðin er því ekki útihátíð heldur tónleikaveisla og eingöngu er hægt að kaupa miða sem gildir fyrir bæði kvöldin. Aðeins verða um 800 miðar í boði þannig að betra er að hafa hraðar hendur á hvað það varðar. Miðasala hefst á www.tix.is núna á fimmtudaginn. Tónleikarnir eru haldnir á föstudags- og laugardagkvöldi og standa frá rúmlega 19:00 rétt fram yfir miðnætti bæði kvöldin.

Virðing fyrir náunga og nærumhverfi
„Ég veit að skipuleggjendur leggja mikla áherslu á það að vinna þetta í sátt við nærumhverfið og við höfum alveg fundið fyrir því,”segir Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu. „Þeir hafa verið að vinna að undirbúningi fyrir þetta í rúmlega tvö ár og hafa haft okkur með í ráðum og við fylgst með framgöngu mála allann þann tíma. Okkur sem vinnum að ferðamálum hérna í Uppsveitunum hefur fundist vanta svona viðburð með vandaðri popptónlist. Við státum af einni glæsilegustu tónlistarhátíð landsins þegar kemur að klassíkinni og með þessari hátíð má segja að við brúum bilið og bjóðum upp á allt það besta hérna í uppsveitunum,” bætir Ásborg við.

Fyrir tónlistarunnendur á öllum aldri
Hátíðin er hugsuð fyrst og fremst fyrir þá sem unna góðri dægurtónlist, hvort sem hún er hefðbundin eða undir þjóðlaga eða “indie” áhrifum. Skipuleggjendur gera ráð fyrir því að fólk muni sækja hana úr borginni en ekki síður íbúar í uppsveitum Árnessýslu, hvort heldur sem þeir eru heilsársíbúar eða ábúendur í þeim tæplega 7000 sumarhúsum sem þar eru, nú eða öðrum byggðum eins af hjólahýsa- og tjaldborgabyggð sem rísa á Flúðum, Apavatni, Aratungu og í nágrenni Laugarvatns á hverju sumri. Það eru því allir velkomnir en þó undir þeim formerkjum að 20 ára aldurstakmark gildir nema ungmenni séu með foreldrum eða forráðamönnum.

Náttúrufegurð og fagmannleg gestrisni
Laugarvatn er staður með mikið aðdráttarafl, náttúrufegurðin, aðstaðan öll og nálægðin við höfuðborgina gera staðinn mjög ákjósanlegan fyrir svona metnaðarfulla tónlistardagskrá. Þess utan er Laugarvatn hluti af hinum víðfræga Gullhring og þaðan er stutt að fara til að skoða marga af fallegustu stöðum landsins á daginn og njóta tónlistar á kvöldin. Gullfoss, Geysir, Þingvellir, Kerið og Skálholt eru öll steinsnar frá Laugarvatni og þá má ekki gleyma stöðum eins og Fontana sem er við hlið tónlistarhússins, Gamla Laugin á Flúðum, besta ísgerð landsins og ferðamannafjósið í Efsta Dal, Húsdýragarðurinn Slakki í Laugarási og ekki má gleyma Friðheimum í Reykholti en allt eru þetta gríðarlega vinsælir staðir að heimsækja. Víða er hægt að versla grænmeti og önnur gæði uppsveitanna beint af býli en styttra verður kolefnisspor matarinnkaupanna varla en þar. Þá eru á Laugarvatni og í nágrenni afburða góðir veitingastaðir og þar fer Lindin á Laugarvatni fremst í flokki.

Fullkomin og fjölbreytt aðstaða
Á Laugarvatni er fyrsta flokks tjaldstæði, farfuglaheimili, hótel og hostel. Náttúrulindin Fontana tekur vel á móti öllum og veitingastaðir allt frá vegasjoppu að fimm stjörnu veitingahúsum eins og Lindinni, sem er einn besti veitingastaðurinn á landinu. Veitingastaðirnir í Héraðsskólanum og Lindinni leggja mikla áherslu á að elda úr hráefni úr sveitinni í kring. Steinsnar frá Laugarvatni eru svo Efsti-dalur ferðamannafjós og Friðheimar, svo ekki sé nú minnst á Gullfoss, Geysi og Skálholt. Svona mætti lengi telja. Það er því ekki bara tónlistin sem heillar heldur allt umhverfið sem umleikur hana. Á laugardeginum og sunnudeginum verður svo hægt að fara í skipulagðar skoðunarferðir um nágrenni Laugarvatns, göngu- og hjólaferðir um nágrennið og sérstaka Yoga tíma sem verða utan dyra.

Allar upplýsingar um tjaldstæði, aðra gistingu og afþreyingu í uppsveitum Árnessýslu er hægt að finna á http://sveitir.is Miðasala hefst á www.tix.is á fimmtudag

Hægt er að fylgjast með framgangi tónleikaveislunnar á Facebook https://www.facebook.com/LaugarvatnMusicFestival/?fref=ts