Tix.is

Um viðburðinn

Mattila syngur Wagner - Sinfóníuhljómsveit Íslands
15. mar. » 19:30 Eldborg | Harpa

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Yan Pascal Tortelier

EINSÖNGVARI
Karita Mattila

EFNISSKRÁ
Anton Webern Passacaglia
Richard Wagner Wesendonck-söngvar
Hector Berlioz Symphonie fantastique (Draumórasinfónían)

Tónleikakynning í Hörpuhorni » 18:00

Karita Mattila er ein skærasta söngstjarna Norðurlanda. Á löngum og viðburðaríkum ferli hefur þessi finnska sópransöngkona meðal annars sungið leiðandi hlutverk við Metropolitan, Covent Garden og Bastillu-óperuna. Hún hefur tvívegis hlotið Grammy-verðlaun og árið 2005 valdi tímaritið Musical America hana tónlistarmann ársins. Árið 2007 gerði BBC Music Magazine lista yfir 20 bestu sópransöngkonur síðustu 100 ára og Mattila komst vitaskuld þar á blað. Hún syngur nú í fyrsta sinn á Íslandi með Sinfóníuhljómsveit Íslands og túlkar munúðarfulla ástarsöngva sem Wagner samdi við ljóð ástkonu sinnar Mathilde Wesendonck. Þetta er einstakt tækifæri til að heyra eina fremstu sópransöngkonu samtímans.

Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er sannarlega á heimavelli þegar kemur að franskri tónlist og á tónleikunum hljómar eitt af eftirlætisverkum hans. Draumórasinfónían eftir Berlioz er lykilverk rómantíkurinnar í tónlist, ævintýraleg lýsing á ástarraunum ungs skálds sem að lokum grípur til örþrifaráða.