Tix.is

Um viðburðinn

Rokkkór Íslands er tveggja ára gamall og fer heldur óhefðbundnari leiðir en gengur og gerist í kórsöng. Kórinn skipar um 40 söngvara sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa mikla reynslu í popp-, rokk- og dægurlagasöng. Útkoman er kraftmikill og algjörlega einstakur hljómur sem er klárlega nýr sinnar tegundar hér á landi og eitthvað sem vert er að kíkja á.

Á þessum tónleikum verða flutt þekkt rokklög frá tíunda áratugnum (90´s) eftir flytjendur á borð við Radiohead, No Doubt, Jet black Joe, Stone Temple Pilots, Anouk, Metallica, Guns N´Roses, Aerosmith, Queen, Nirvana, Red Hot Chilli Peppers, Skunk Anansie, Creed, Alanis Morissette, The Cranberries, Ugly kid Joe, Spoon o.fl. Það verður því mikið rokkað þetta kvöld þar sem stuð og stemning verður í hámarki. Einsöngvarar tónleikanna eru allt meðlimir úr kórnum en það eru: Anna Rún Frímannsdóttir, Arna María Geirsdóttir, Áslaug Helga Hálfdánardóttir, Björg Ósk Bjarnadóttir, Brynhildur Jónsdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hjördís Karen Hrafnsdóttir, Katrín Hildur Jónasdóttir, Kristjana Þórey Ólafsdóttir, Sísí Ástþórsdóttir, Sigga Sif Sævarsdóttir, Svavar Þórisson, Sunneva Lind Ólafsdóttir.Tinna Marína Jónsdóttir og Tómas Guðmundsson,

Stórskota hljómsveit verður með kórnum á sviðinu en á gítar spilar Davíð Sigurgeirsson, Róbert Þórhallsson verður á bassa, Pálmi Sigurhjartarson leikur á hljómborð, Fúsi Óttars er á trommum og Þorbergur Ólafsson sér um slagverk. Hljóðmaður er Hrannar Kristjánsson og stjórnandi kórsins er Matthías V. Baldursson (Matti sax).

Kórinn var stofnaður vorið 2015 af Matta sax og nokkrum áhugasömum söngvurum sem langaði að búa til öðruvísi kór sem hentaði popp- og rokkröddum. Fyrsta verkefni kórsins var að fara í hljóðver og taka upp nokkur vel valin lög sem voru gefin út 2015-16 og hafa hlotið mjög góðar viðtökur. Kórinn kom fram í fyrsta sinn í Eldborg haustið 2015 á afmælistónleikum Sniglabandsins og eftir það var ekki aftur snúið enda Rokkkór Íslands kominn til að vera! Kórinn hélt svo sína fyrstu tónleika í Kaldalóni í febrúar 2016 þar sem tónlist níunda áratugarins (80´s) var gefin góð skil en vegna eftirspurnar voru haldnir tvennir tónleikar það kvöld og seldist upp á þá báða! Eftir það var út séð að kórinn þyrfti stærri sal og færði hann sig yfir í Norðurljós haustið 2016 með Seventís tónleika sem einnig seldist upp á.