Tix.is

Um viðburðinn

Tilefni hátíðartónleika Kammerkórs Suðurlands í Kristskirkju 21. mars nk. kl. 20 er útgáfa hljómplötunnar - Kom Skapari - á 20 ára afmælisári kórsins.

Kammerkór Suðurlands hefur unnið að útgáfu hljómplötunnar sl. 5 ár, en á henni er að finna verk sem öll voru samin fyrir kórinn og voru frumflutt á Myrkum músíkdögum árið 2012. Kammerkór Suðurlands hefur í gegnum tíðina verið í nánu samstarfi við ung tónskáld og á tónleikunum nú verða flutt fjögur ný verk eftir tónskáld sem eiga verk á plötunni, þá Georg Kára Hilmarsson, Snorra Hallgrímsson og Örlyg Benediktsson ásamt verki eftir Unni Malín Sigurðardóttur kórfélaga og tónskáld.

Kammerkór Suðurlands var frá árinu 2004 í nánu samstarfi við breska tónskáldið sir John Tavener, sem valdi kórinn til að frumflytja nokkur verka sinna og m.a. á eftirminnilegum tónleikum í Soutwark dómkirkjunni í Lundúnum þremur dögum eftir skyndilegt fráfall tónskáldsins árið 2013. Á tónleikunum í Kristskirkju verða flutt nokkur sjaldheyrð verka hans og m.a. verk sem hann samdi sérstaklega fyrir dætur sínar og gaf stjórnanda kórsins til flutnings.

Á tónleikunum verða flutt fleiri verk samin sérstaklega fyrir kórinn. Má þar nefna verk eftir velska tónskáldið Jack White, en samstarfið við hann markaði upphafið af stóru Evrópuverkefni kórsins ásamt Curated Place á Englandi og hófst í gegnum bresku tónlistarsamtökin Sound and Music í Lundúnum en verkið hefur kórinn flutt á Salisbury Art Festival, Listahátíð í Reykjavík og í Southwark Cathedral í Lundúnum. Einsöng í verkinu syngur Björg Þórhallsdóttir sópran. Þá verður flutt verkið Raddir eftir Ólaf Arnalds sem kórinn hljóðritaði með honum og kom út á plötu hans Island songs árið 2016.

Hallvarður Ásgeirsson samdi fyrir kórinn verkið Niður sem flutt verður á tónleikunum. Verkið er ,,uppgjöf” í þremur hlutum, tón- og dansverk unnið í samstarfi við Sögu Sigurðardóttur og var frumflutt á Cycle Music and Art Festival 2016.

Flutt verður Veronikukvæði, íslenskt þjóðlag í útsetningu Jakobs Hallgrímssonar, sem er lag af fyrstu plötu kórsins, Ég byrja reisu mín, sem út kom árið 2000.

Þá mun Páll á Húsafelli - náinn samstarfsfélagi og vinur kórsins spila á steinhörpu sína í verkinu Norðurljós sem hann samdi fyrir kórinn og var flutt á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs árið 2015 í útsetningu Örlygs Benediktssonar.

Tónlistin sem hljómar á tónleikunum er öll mikil tilbeiðslutónlist og tileinkuð föður tilbeiðslutónlistar í vestrænum heimi, J. S. Bach á afmælisdegi meistarans. Á undan tónleikunum flytur Eyþór Franzson Wechner organisti verk eftir tónskáldið og m.a. hina þekktu H-moll prelúdíu.

Stjórnandi Kammerkórs Suðurlands er Hilmar Örn Agnarsson.