Tix.is

Um viðburðinn

Úrvalssæti kr. 16.990

A svæði kr. 13.990-
B svæði kr. 10.990-
C Svæði kr. 8.990-
D svæði kr. 5.990- (skert sjónlína á sýningartjald, þó aldrei meira en 20%)

Óskarsverðlaunamyndin Lord of the Rings – The Fellowship of the Ring– (Hringadróttinssaga – Föruneyti hringsins) verður sýnd í fullri lengd í Eldborgarsal Hörpu ásamt stórri sinfóníuhljómsveit, einsöngvurum og kórum. Tónlist og söngur myndarinnar, eftir eitt virtasta kvikmyndatónskáld samtímans – Howard Shore– verður flutt lifandi undir þessari frábæru kvikmynd – sem af mörgum er talin vera eitt besta verk kvikmyndasögunnar. Þess má geta að tónlistin í kvikmyndinni hefur fengið fjölda verðlauna þar á meðal Óskarsverðlaun. Alls verða yfir 230 manns á sviði Eldborgar sem gerir þessa sýningu að einum stærsta viðburði sem haldinn hefur verið í Hörpu.

Tónskáldið Howard Shore blæs svo sannarlega iðandi lífi í undraheim Hringadróttinssögu Tolkiens með tónlist sinni við kvikmyndina „The Fellowship of the Ring- Föruneyti hringsins – enda fékk hann m.a. Grammy-verðlaun fyrir þetta meistaraverk. Tónlistin lyftir kvikmynd Peters Jackson af ákefð sinfóníunnar og Shore nýtir sér tónlistarhefðir og blæbrigði liðinna alda á alveg einstakan og sérstæðan hátt.

Tónlistin við „Lord of the Rings“ er almennt talin með yfirgripsmestu og vandasömustu kvikmyndatónlist sögunnar. Hið einstæða afrek felst í því að gera hvort tveggja í senn: að láta tónlistina skapa myndinni hæfilegan bakgrunn, en leyfa henni engu að síður að grípa inn í sjálft frásagnarhlutverkið. Þannig tekst tónskáldinu að veita áhorfendum alveg nýja reynslu. Þeir eru ekki aðeins staddir á kvikmyndasýningu, heldur jafnframt á hljómleikum.

Shore lætur ekki nægja að undirstrika hrífandi tilfinningaflæði myndarinnar og stórfengleika. Í tónlist hans endurómar líka gerð og eðli Miðgarðs í verkum Tolkiens. Keltneskir tónar skapa okkur ímynd af sakleysi dreifbýlishobbitanna, en hindir dularfullu álfar eru sveipaðir austrænum tónalitum. Dvergarnir, hinir hrjúfu steinsmiðir Tolkiens, njóta sín til fulls við undirtóna djúpra radda karlakórsins.

Ættbálkar orca krefjast hörkulegra slagverkshljóma og í því samhengi nýtir Shore japanskar taikotrommur, gjallandi málma og keðjuslátt á píanóstrengi, en mennskir erfingjar Miðgarðs eru kynntir með óvægnum, en um leið leitandi málmblásturhljómum. Þessar ólíku hljómgerðir sameinast á köflum og rísa sameiginlega til valda, en heyja líka á stundum baráttu sín á milli, en hljóta þó ætíð að beygja sig undir vilja Hringsins og mynda eins konar sundurleita og stundum ógnvænlega fjölskyldu.

Tónlistin breiðir sig svo vítt og til svo ólíkra átta að til flutningsins þarf heila sinfóníuhljómsveit, blandaðan kór, barnakór og einleik, ásamt einsöngsflutning á þeim ólíku tungumálum, sem Tolkien skapaði: Quenya, Sindarin, Khuzdûl, Adûnaic og „Black Speech“ auk ensku. Hér rísa hefðbundin þjóðlög við hlið misstígra tilbeiðslusöngva og flókinna og samhnýttra tónbrigða, sem allt fléttast saman, stundum líkt og af handahófi. Í raun er þó ekkert handahófskennt við þessa tónlist. Hún á sér þvert á móti alltaf ákveðinn tilgang og innan þessa víða ramma afar mismunandi hljómgerða og tónsviða hefur Shore tekist að skapa áhorfendum ótrúlega nákvæma hljómsýn. Shore hefur bæði nýtt sér jarðbundnari tilfinningar, byggðar á gefnum eigindum og möguleikum hljómsveitarinnar, og ójarðneskara flæði, sem mætti líkja við hljómbrigði rennandi vatns, en þó án óþarfa tilgerðar eða skrauts.

Við skulum vitna í Howard Shore sjálfan: „Þetta er í fyrsta sinn sem tónlistin við The Fellowship of the Ring er flutt í heild sinni og af hljómsveit við sýningu myndarinnar. Tónlistin við þessa fyrstu mynd þríleiksins markaði upphafið að langri ferð inn í heim Tolkiens og sjálfum þykir mér alltaf vænt um þessa tónlist og þá reynslu sem hún miðlaði mér.“
Doug Adams

Athugið myndin er ekki við hæfi barna undir 12 ára aldri

Tónskáldið Howard Shore
Howard Shore er í hópi virtustu og mikilvirkustu tónskálda og tónlistarstjórnenda og einnig meðal þeirra, sem oftast hafa verið verðlaunaðir fyrir afrek sín. Tónsmíðar hans við kvikmyndaþríleik Peters Jackson upp úr Hringadróttinssögu, eða „Lord of the Rings“ verða þó að teljast hátindurinn á ferli hans til þessa og fyrir þær hlaut hann þrenn Óskarsverðlaun. Honum hafa einnig hlotnast Grammy-verðlaunin þrisvar sinnum og fjórum sinnum hefur hann unnið til Golden Globe-verðlauna. Shore var í hópi þeirra sem upphaflega sköpuðu „Saturday Night Live“ skemmtiþáttinn. Hann var tónlistarstjórnandi þáttanna frá 1975 til 1980. Á þessum tíma hóf hann einnig að starfa með David Cronenberg og samdi tónlistina við 14 af kvikmyndum hans, þeirra á meðal Cosmopolis (2012), The Fly, Crash og Naded Lunch. Honum hlotnuðust Genie-verðlaunin fyrir frumsamda tónlist við myndirnar A Dangerous Method, Eastern Promises og Dead Ringers. Tónsmíðar hans ná yfir vítt svið og nefna má svo ólíkar kvikmyndir sem The Departed, The Aviator, Gangs of New York, Philadelphia, Mrs Doubtfire og The Silence of the Lambs eða Hugo eftir Martin Scorsese.

Tónlist Howards Shore hefur verið flutt á hljómleikum víða um heim. Árið 2003 stjórnaði hann sinfóníuhljómsveit Nýja-Sjálands ásamt kór við frumflutning á The Lord of the Rings-sinfóníunni í Wellington. Síðan hafa ýmsar af þekktustu sinfóníuhljómsveitum heims flutt þetta verk á alls meira en 140 hljómleikum.

Árið 2008 var óperan The Fly eftir Howard Shore frumflutt í Chatelet-leikhúsinu í París og Óperunni í Los Angeles. Hann hefur einnig samið fjölda annarra verka, m.a. píanó- og sellókonserta. Meðal nýjustu afreka hans má nefna tónlistina við Hobbitann og nú vinnur hann að gerð nýrrar óperu.

Howard Shore hefur auk alls annars verið verðlaunaður sérstaklega fyrir ævistarf sitt á sviði kvikmyndatónlistar og hann hefur einnig verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við tvo háskóla, auk þess honum hafa verið veittar sérstakar heiðursviðurkenningar bæði í Frakklandi og Kanada.