Tix.is

Um viðburðinn

Dj. flugvél og geimskip er sólóverkefni listakonunnar Steinunnar Eldflaugar Harðardóttur. Tónlistin sækir áhrif í ótal heima og fjallar um óravíddir geimsins, drauga, drauma og leyndardóma hafdjúpanna svo eitthvað sé nefnt. Henni hefur verið lýst sem elektrónískri hryllingstónlist með geimívafi, sem samanstendur af fjörugum töktum, töffaralegum bassa og grípandi laglínum. Tónleikar með dj. flugvél og geimskip eru einstaklega litríkir, líflegir og fullir af ljósum og reyk. dj. flugvél og geimskip segir sögur milli laga til að veiða áhorfendur inní töfraheim. Með hjálp ótal trommuheila, hljómborða og diskóljósa er áhorfendum boðið í ferðalag um töfra-heim sem er jafn stór og hugarflugið nær.)

Dj. flugvél og geimskip gaf út fyrstu plötuna sína, Rokk og róleg lög, árið 2009 og árið 2013 gaf hún út plötuna Glamúr í geimnum sem fékk frábærar viðtökur hér heima. Titillag plötunnar varð feykivinsæl og myndbandið, sem dj. flugvél og geimskip gerði sjálf við lagið, var tilnefnt sem besta myndbandið á Íslensku tónlistarverðlaununum. Platan hlaut Kraumsverðlaunin 2013.

Í júní árið 2015 kom síðan út þriðja hljóðversplata dj. flugvélar og geimskips sem ber nafnið Nótt á hafsbotni en þar fjalla lögin um hafdjúpin. Platan, sem fékk gríðargóða dóma, hlaut hin eftirsóttu Kraumsverðlaun. Jafnframt kom hún út í Bretlandi í desember 2015 og var valin ein af 50 bestu plötum ársins af Line of Best Fit. Nótt á hafsbotni er þyngri í spilun en Glamúr í geimnum, en taktarnir eru dansvænni og melódíurnar eru undir áhrifum frá austrænni tónlist, m.a. Sýrlandi og Indlandi. Um mitt síðasta ár sendi dj. flugvél og geimskip frá sér sitt fyrsta lag á ensku, The Sphinx, en um þessar mundir vinnur hún að upptökum á nýrri plötu sem alfarið verða á ensku.