Tix.is

Um viðburðinn

Þungarokksveitin DIMMA á Hard Rock Cafe

Þungarokksveitin DIMMA mun koma fram á tónleikum á Hard Rock Cafe laugardaginn 4. feb kl 22.
Sveitin er nú önnum kafin við vinnslu á stórri hljóðversplötu sem koma mun út nú í vor og hefur ekki komið fram á tónleikum í Reykjavík í langan tíma og er þeim drengjum því farið að klæja í rokkputtana.
Dimma mun fylgja nýju plötunni eftir með fjölda tónleika víðsvegar um land og mun sú herferð hefjast í lok maí. Það er því ljóst að þessi tónleikar á Hard Rock eru einu tónleikarnir sem sveitin mun halda þangað til í sumarbyrjun og er því um að gera að koma og skála við þá pilta, hvetja þá til dáða í hljóðversvinnunni og vera með eyrun spert því ekki er óhugsandi að einhverjir nýjir og óútgefnir tónar fái að hljóma þetta kvöld þó engu sé lofað þar um...

DIMMU þarf vart að kynna fyrir rokkþyrstum en sveitin hefur gefið út ógrynni af plötum og DVD diskum, komið fram á eigin tónleikum í öllum helstu tónleikahúsum landsins, leikið á flestum stærstu tónlistarhátíðunum, komið fram í sjónvarpi og útvarpi með eigin tónleika og almennt séð verið með djöfulgang og læti, en þó ekki vesen, um land og mið. Þá er ótalið samstarf sveitarinnar við goðsögnina Bubba Morthens sem gaf af sér tvær tónleikaplötur og gríðarlega vel heppnað verkefni með SinfóNord sem skilaði sér í annarri slíkri plötu.

Það er því hægt að lofa kraftmiklu kvöldi á glæsilegum tónleikastað Hard Rock Cafe, húsið opnar kl. 22:00 en DIMMA stígur á svið um kl. 22:30 og miðaverð er 2.500 kr.

18 ára aldurstakmark