Tix.is

Um viðburðinn

Eitt mesta stórvirki kórbókmenntanna!

Söngsveitin Fílharmónía flytur eitt mesta stórvirki kórbókmenntanna, Ein deutsches Requiem eftir Johannes Brahms, í Norðurljósasal Hörpu þann 28. febrúar næstkomandi. Einsöngvarar eru Ágúst Ólafsson og Hallveig Rúnarsdóttir. Verkið er flutt í útsetningu fyrir tvö píanó og pákur. Um píanóleik sjá þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Brynhildur Ásgeirsdóttir. Pákuleikari er Eggert Pálsson.

Ein deutsches Requiem, eða Þýsk sálumessa, er viðamikið kórverk og á tónleikunum telur kórinn um áttatíu söngvara. Fjölmargir úr hópnum hafa flutt verkið áður, en Söngsveitin flutti verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói vorið 2008, í söngför til Wrochlaw í Póllandi sama ár og nú síðast árið 2014 í Langholtskirkju. Fyrir þann flutning hlaut kórinn tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistarviðburð ársins.

Verkið er afar tilkomumikið og meistaralega samið en Brahms notaðist við þýskan texta lúterskrar útgáfu Biblíunnar. Sjálfur vísaði Brahms til tónverksins sem „hinnar mannlegu sálumessu“ vegna þeirrar áherslu sem hann leggur á að hugga eftirlifendur og segja má að tónlistin sé full af von og huggun þó að hinn tragíski þráður sé aldrei langt undan.

Hér er um stórviðburð í íslensku tónlistarlífi að ræða sem enginn unnandi rómantískra meistaraverka ætti að láta fram hjá sér fara.