Tix.is

Um viðburðinn
Bíó Paradís og amiina kynna kvikmyndatónleika í tilefni af nýjustu útgáfu hljómsveitarinnar, þar sem saman fara kvikmyndin Juve contre Fantômas (1913) og lifandi tónlist hljómsveitarinnar amiinu. 

Lávarður hryllingsins, herra Fantômas, ræður ríkjum á nýjustu plötu hljómsveitarinnar amiinu sem út kemur hjá Mengi 25. nóvember næstkomandi. Tónlist amiinu var samin við þögla spennumynd frá árinu 1913 eftir franska kvikmyndaleikstjórann Louis Feuillade, og frumflutt á Hrekkjavöku í hinu virta Théâtre du Châtelet í París árið 2013. Tónlistin lítur nú dagsins ljós sem sjálfstæð heild sem fjórða breiðskífa amiinu, eldri eru Kurr (2007), Puzzle(2010) og The Lighthouse Project (2013) en allar þessar plötur hafa hlotið dreifingu víða um heim og hlotið frábærar viðtökur. 

Angurværð og tregi, himneskar laglínur og ágengir taktar, ólgandi spenna og hryllingur; tónlist amiinu við Fantômas býr yfir margvíslegum kenndum þar sem nokkur leiðarstef mynda nokkurs konar rauðan þráð og gefa tilfinningu fyrir heilsteyptu verki á sama tíma og hægt er að njóta hvers einstaks lags. Fiðla, selló, ukulele, trommur, slagverk ýmiss konar, borðharpa og rafhljóð mynda uppistöðuna í hljóðheimi amiinu á þessari plötu sem er full af andstæðum þar sem möguleikar hljóðfæranna eru nýttir á margvíslegan hátt eins og amiinuliðum einum er lagið. Þetta er ekki fyrsta kvikmyndin sem amiina semur tónlist við, undanfarin ár hafa þau tekið ástfóstri við heillandi kvikmyndir þýsku kvikmyndagerðarkonunnar Lotte Reiniger og samið tónlist við nokkur af brothættum ævintýrum hennar.

Annars konar andrúmsloft svífur svo sannarlega yfir vötnum í kvikmyndum Louis Feuillade um hinn harðsvíraða glæpamann Fantômas sem fyrst kvaddi sér hljóðs árið 1911 í bókaseríu frönsku rithöfundanna Marcel Allain og Pierre Souvestre en Fantômas sló umsvifalaust í gegn á meðal franskra, spennusagnaþyrstra lesenda. Hann varð aðalviðfangsefni fimm kvikmynda Louis Feuillade sem frumsýndar voru á árunum 1913 til 1914 í París og átti einnig eftir að verða ótal listamönnum úr ólíkum áttum innblástur allt fram á okkar daga. Súrrealistar og framúrstefnulistamenn í upphafi 20. aldarinnar á borð við Guillaume Appolinaire og René Magritte sóttu í smiðju Fantômas og sjónvarpsþættir, myndasögur, kvikmyndir, skáldsögur og tónlistarmenn seinni tíma í ótal löndum hafa og byggt á þessum efnivið á einn eða annan hátt, má þar nefna verk listamanna á borð við Mike Patton, Julio Cortázar og ótal fleiri.  

Tónlist amiinu var frumflutt Hrekkjavöku í Théâtre du Châtelet í París árið 2013 samhliða tónlist fjögurra annarra tónlistarmanna við kvikmyndir Louis Feuillade um Fantômas. Tónlistarmennirnir James Blackshaw, Loney Dear, Tim Hecker og Yann Tiersen lögðu til nýja tónlist við hinar fjórar myndirnar á viðburði sem laut listrænni stjórnun Yann Tiersen, sem sjálfur er þekkt kvikmyndatónskáld og samdi meðal annars tónlistina við hina ástsælu kvikmynd Amelie.