Tix.is

Um viðburðinn

Vilberg Vilbergsson oftast kallaður Villi Valli er það sem kallast mætti krúnudjásn í Vestfirsku tónlistarlífi og sennilega víðar. Villi Valli hefur staðið tónlistarvaktina linnulítið í rúm 70 ár.

Hann hóf sinn feril á dansböllum 11 ára gamall á Flateyri. Hann var í forsvari fyrir fjölda hljómsveita og er enn að rúmlega áttræður. Eftir hann liggja nokkrir CD diskar með eigin efni sem náð hafa töluverðri útbreiðslu og nýtur hann virðingar um allt land fyrir sitt listframlag. Villi Valli er heiðurslistamaður Ísafjarðar.

Matthías MD Hemstock slagverksleikari hefur leikið með Villa í hljómsveit af og til í nokkur ár og hefur lengi haft áhuga á að setja saman sveit til að leika með honum tónlist sem mótaði hann – sem kannski má kalla uppáhaldslög Villa Valla. Matthías hefur sett saman quartet til að leika með Villa þ.e. Matthías sjálfur, Eyþór Gunnarsson píanóleikari, Andri Ólafsson á kontrabassa og gítarleikarinn Eðvarð Lárusson.