Tix.is

Um viðburðinn

Tónleikar Sinfóníunnar á Myrkum músíkdögum eru vettvangur fyrir nýja og spennandi íslenska tónlist í bland við erlend meistaraverk. Hér hljómar nýr víólukonsert eftir Hauk Tómasson, saminn fyrir Þórunni Ósk Marínósdóttur sem er leiðandi víóluleikari SÍ og meðal fremstu tónlistarmanna landsins. 

Einnig verður frumflutt nýtt hljómsveitarverk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur en verk hennar, Water's Voice, vakti mikla eftirtekt á Tectonics-tónlistarhátíð SÍ árið 2015. Verk Úlfs Hanssonar var samið fyrir Fílharmóníuhljómsveit Franska útvarpsins í kjölfar þess að hann hlaut fyrstu verðlaun í flokki ungra tónskálda á Tónskáldaþinginu 2013. Doloroso eftir Atla Heimi Sveinsson er kyrrlátur huggunar- og saknaðarsöngur, og er tileinkað minningu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar.

Breska tónskáldið Thomas Ade`s er einn virtasti tónlistarmaður samtímans. Hið glæsilega hljómsveitarverk hans, Polaris, er samið árið 2010. Það ber undirtitilinn „ferðalag fyrir hljómsveit“ og er innblásið af Pólstjörnunni eins og heitið gefur til kynna. Einn gagnrýnandi sagði eftir frumflutninginn að það væri „yfirgengilega fagurt“ og eru það orð að sönnu.