Tix.is

Um viðburðinn

Árið 2006 stofnaði Valgeir Sigurðsson útgáfuforlagið Bedroom Community í samvinnu við bandaríska tónskáldið Nico Muhly og hinn ástralska Ben Frost, og skömmu síðar bættist Daníel Bjarnason í hópinn. Undir merkjum útgáfunnar hafa komið út tugir geisladiska með áhugaverðri tónlist sem spannar hinar ýmsu greinar listarinnar. Á þessum tónleikum heyrast hljómsveitarverk þeirra Bedroom Community-meðlima í bland við flutning annarra tónlistarmanna sem útgáfa hefur á sínum snærum, og sem koma oft fram saman undir merkinu „Whale Watching Tour“. Má þar nefna Ben Frost, bandaríska söngvaskáldið Sam Amidon og víólusnillinginn Nadiu Sirota sem bæði hefur starfað með Arcade Fire og Jónsa í Sigur Rós.

Bandaríkjamaðurinn Nico Muhly er eitt áhugaverðasta tónskáld sinnar kynslóðar og verk hans hafa vakið feiknamikla athygli og jafnvel ratað á svið Metropolitan-óperunnar í New York. Mixed Messages var frumflutt af Philadelphia-hljómsveitinni 2015 og hlaut frábæra dóma, gagnrýnandi The Guardian sagði að það væri „einhvers staðar mitt á milli Sibeliusar og John Adams“. Emergence eftir Daníel Bjarnason hljómaði fyrst á Myrkum músíkdögum 2011 og hefur vakið mikla hrifningu víða um heim.

Bryndís Halla Gylfadóttir hefur löngu skapað sér sess í íslensku tónlistarlífi fyrir innblásinn og listilega útfærðan leik sinn og hér frumflytur hún nýtt verk eftir Valgeir Sigurðsson fyrir selló og hljómsveit. Hljómsveitarstjórinn André de Ridder er heimavanur á Airwaves-hátíðinni þar sem hann hefur nokkrum sinnum áður stýrt Sinfóníunni við frábærar undirtektir.