Tix.is

Um viðburðinn

Samstarf Bubba Morthens og hljómsveitarinnar Dimmu þarf vart að kynna en skemmst er að minnast frábærra tónleika þeirra í Eldborgarsal Hörpu í mars á þessu ári. Fyrir jólin kom út tvöfaldur CD/DVD tónleikapakki sem tekin var upp á þeim tónleikum og hefur diskurinn fengið feiknagóðar viðtökur.

Þá réðust þeir ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur tóku þeir fyrir plöturnar Geislavirkir með Utangarðsmönnum og Das Kapital plötuna Lili Marlene . Þessir tónleikar slógu svo rækilega í gegn að í framhaldinu kom tvíeykið fram á nokkrum helstu tónlistarhátíðum landsins s.s. Eistnaflugi, Bræðslunni , Þjóðhátíð og Airwaves.

Á ferðum hópsins um landið hefur myndast ógnargóð stemning og mikil vinátta skapast, því kemur ekki annað til greina en að halda þessu gæfuríka samstarfi áfram og í tilefni af þvi að Bubbi verður sextugur 2016 verður lagt í verkefni sem er ekki minna spennandi en það fyrra en það er að leika lög hinnar goðsagnakenndu sveitar EGÓ.

Dimmu drengirnir hafa ekki legið á þeirri skoðun sinni að EGÓ sé ein af þeim hljómsveitum sem hefur mótað þá hvað mest sem og að hljóðfæraleikararnir sem skipuðu EGÓ hafi haft mikil og mótandi áhrif á þá. Það verður því gríðarlega spennandi að fylgjast með þessum hópi túlka þessa tónlist á sinn hátt..

Tónleikarnir verða í Háskólabíói föstudaginn 11. mars og má ljóst vera að ekkert verður til sparað til að skapa umgjörð þar sem lög eins og: Stórir strákar fá raflost, Móðir, Fjöllin hafa vakað, Mescalin og fjölmörg önnur verða sett inn í þungan og harðan hljóðheim Dimmu.

Um EGÓ

Egó gaf út 4 plötur og hefur starfað með hléum og í nokkurum útgáfum frá 1982 og allt til ársins 2009. Egó var í raun nokkurs konar afsprengi Utangarðsmanna a.m.k að hluta til. Grípum hér aðeins niður í umfjöllun um upphaf Egó en meira má lesa um hljómsveitina á www.bubbi.is

Þegar minnst er á hljómsveitina Egó er það varla hægt nema Utangarðsmenn komi þar við sögu, enda saga sveitanna samofin sterkum böndum, því um tíma voru þrír meðlimir síðarnefndu sveitarinnar meðlimir Egósins. Það má segja að með Utangarðsmönnum hafi einstaklingarnir orðið þekktir, en með Egóinu urðu þeir vinsælir. Það nægir í þessu sambandi að nefna að fyrsta plata Egósins sat lengur á topp 10 yfir söluhæstu plötur landsins en allar plötur Utangarðsmanna áður samanlagt. Eða eins og einn aðdáandi orðaði það: Egóið? -hún var æðisleg, Utangarðsmenn? -ég var skíthrædd við þá.

Miðasala hefst mánudaginn 21. desember kl 10:00. Ekki missa af þessum stórviðburði í íslensku rokksögunni. Þetta er aldeilis tilvalin gjöf í jólapakka rokkarans og allra aðdáenda Bubba og Dimmu.